Innlent

Hestamenn íhuga að stefna Kópavogsbæ

Kópavogsbær hefur ekki framlengt leigusamning við hestamenn á svæðinu. Bærinn er í viðræðum við aðila um sölu á svæðinu. Niðurrif stendur nú yfir á húsunum.
Kópavogsbær hefur ekki framlengt leigusamning við hestamenn á svæðinu. Bærinn er í viðræðum við aðila um sölu á svæðinu. Niðurrif stendur nú yfir á húsunum. mynd/hag
guðríður arnardóttir
Hestamannafélagið Gustur hyggst sækja rétt sinn gagnvart Kópavogsbæ ef ekki semst um nýja aðstöðu fyrir félagið að Kjóavöllum. Bæjaryfirvöld hafa ekki staðið við samning um uppbyggingu á svæðinu.

Árin 2006 til 2007 var samið um flutning hesthúsasvæðisins frá Glaðheimum að Kjóavöllum. Samningar voru tvíþættir: annars vegar keyptu bæjaryfirvöld hesthús af eigendum þeirra og hins vegar áttu eignir Gusts að ganga upp í nýja aðstöðu félagsins að Kjóavöllum. Bæjarfélagið keypti öll hesthúsin samkvæmt samningnum og hefur fjöldi þeirra þegar verið fluttur að nýja svæðinu eða rifinn. Hesthúsaeigendum var þó leyft að nýta húsin að Glaðheimum áfram. Nú hyggst bærinn hins vegar rýma svæðið og þeir eigendur sem eftir eru þurfa að flytja sig um set.

Hermann Vilmundarson, formaður Hestamannafélagsins Gusts, segir töfina á uppbyggingunni þýða mikil óþægindi fyrir félagið. Menn sýni því skilning að bærinn sé staurblankur, en það verði að semja við félagið og hefja framkvæmdir. Hann segist bjartsýnn á að samningar náist, en félagið komi til með að leita réttar síns ef ekki semst.

„Hesthúsaeigendur eru að stærstum hluta á Kjóavöllum, en menn með hús þar eru með hesta í Glaðheimum því að engin aðstaða er á Kjóavöllum.“

Guðríður Arnardóttir, formaður bæjarráðs Kópavogs, segir að vissulega hafi ekki verið staðið við samninginn. Það standi hins vegar ekki steinn yfir steini í því samkomulagi vegna efnahagshrunsins. Framkvæmdir bæjarins verði að fjármagna af rekstrarfé, þar sem bærinn sé ekki í aðstöðu til að taka lán.

Hún segir bæjarfélagið hafa boðið Gusti að reisa reiðhöll sem er minni en upphaflega var áætlað. Þá sé í samningnum gert ráð fyrir sameiningu félaganna Gusts og Andvara, en hið síðarnefnda ráði yfir skeiðvöllum sem megi samnýta. Því þurfi ekki að reisa skeiðvelli sérstaklega fyrir Gust.

Náist samkomulag um þetta mætti hefja framkvæmdir við reiðhöll strax í haust. Hún yrði örlítið minni en sú stærsta á landinu, sem er á Akureyri. Félagið vilji hins vegar stærri höll.

„Er það endilega málið að Kópavogsbær byggi stærstu reiðhöll landsins árið 2011 miðað við efnahagsaðstæður?“ spyr Guðríður.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×