Innlent

Jesús tók við af Jack Daniel"s hjá Duane

Duane H. Lyon segist kunna vel við sig í svölu íslensku sumarveðri.
Duane H. Lyon segist kunna vel við sig í svölu íslensku sumarveðri. fréttablaðið/anton
Eflaust hafa margir vegfarendur í Reykjavík tekið eftir götupredikaranum Duane H. Lyon á leið sinni um götur og torg. Fréttablaðið ákvað að forvitnast um hann og erindið sem bar hann hingað.

„Ég hef komið til 47 ríkja Bandaríkjanna og nú ætlaði ég að bæta Alaska í hópinn en þegar ég sá að það var dýrara að fara til Alaska en til Íslands þá sagði ég: Hei, af hverju skelli ég mér ekki bara til Íslands,“ segir Lyon.

En hvað vill hann segja við Íslendinga. „Í raun og veru aðeins tvö orð; Jesús frelsar,“ svarar hann að bragði. Þegar spurt er frá hverju hann frelsi okkur stendur heldur ekki á svari. „Ég er frá Tennessee í Bandaríkjunum og þar vellur allt í Jack Daniel"s vískíi. Mér þótti það reyndar afskaplega gott, jafnvel allt of gott. En þegar ég stóð frammi fyrir því að þurfa að gera upp á milli Jesús og Jacks, þá sá ég að annar var á leiðinni að drepa mig en hinn vildi frelsa mig og því lá rétta ákvörðunin í augum uppi.“

Hann leggur ríka áherslu á að það sé ekki leiðinlegt líf að vera trúaður. „Þetta er bara hreint og beint fjör,“ segir hann og hlær við. „Ég er að láta draum minn rætast, ég hef ferðast um 58 lönd á 28 árum og kynnst yndislegu fólki. Núna er ég til dæmis hæstánægður hér á Íslandi, fólkið er yndislegt og veðrið er frábært. Ef einhver er að kvarta út af verðinu hérna getur sá hinn sami minnst þess að við í Tennessee borgum háar fjárhæðir til þess að fá inn til okkar þennan ferska blæ en Guð lætur ykkur fá hann endurgjaldslaust,“ svo skellihlær hann.

- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×