Innlent

Finna taflmann í fornri verbúð

Taflmaðurinn sem hvílt hefur öldum saman í sjávarbakkanum á Siglunesi.
Taflmaðurinn sem hvílt hefur öldum saman í sjávarbakkanum á Siglunesi.
Birna Lárusdóttir
Taflmaður sem skorinn hefur verið út úr ýsubeini var á meðal muna sem starfsmenn Fornleifastofnunar Íslands fundu í rannsóknarleiðangri sínum á Siglunesi við Siglufjörð sem lauk í gær.

Birna Lárusdóttir verkefnastjóri segir að líklegast hafi hann verið skorinn út hér á landi á 12. eða 13. öld. Miklar sjóbúðaminjar og aðrar rústir eru í sjávarbakka á svæðinu sem sjávarrof herjar á. Siglunes var landnámsjörð Þormóðs ramma, eins og fram kemur í Landnámu.

Greinilegt er að þurrabúðarfólkið hefur haft ýmislegt fyrir stafni því þarna hafa áður fundist hárkambur úr beini, vaðsteinn og spilateningur. Í þessum leiðangri fundust síðan hvalbein og fiskbein sem gætu reynst góðar vísbendingar um það sem veitt var og etið.

Ekki hefur fundist mikið af manngerðum munum utan taflmannsins. Sýning verður á mununum að rannsókn lokinni.

Birna og kollegar hennar urðu ekki mát þó að taflmaðurinn væri með hjálm og alvæpni því stefnt er á að reyna að tryggja fjármagn til áframhaldandi rannsókna á Siglunesi á næstu árum.

Gantast var með það á Siglufirði að þarna væri landnámsmaðurinn Þormóður rammi fundinn en vísindin gefa ekki mikið fyrir þá rómantík.- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×