Innlent

Söluverð efnisins er um 19 milljónir

Skipverji á Goðafossi var í gær dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir eiturlyfjasmygl.
Skipverji á Goðafossi var í gær dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir eiturlyfjasmygl. Mynd/Pjetur
Benedikt Pálmason var dæmdur í þriggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í gær fyrir að hafa flutt inn 3,8 kíló af amfetamíni.

Benedikt, sem er 36 ára gamall, nýtti sér aðstöðu sína sem háseti á flutningaskipinu Goðafossi til að koma efnunum til landsins, en hann var handtekinn í byrjun júní eftir að hann hafði tekið efnin frá borði.

Í dómnum segir að við rannsókn rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði hafi komið í ljós að efnið var afar sterkt. Samkvæmt upplýsingum SÁÁ um götuverð á fíkniefnum gæti söluverðmæti efnisins numið um nítján milljónum króna.

Benedikt gekkst skýlaust við brotunum og var það talið honum til málsbóta. Þá þótti dómnum sýnt að hann væri burðardýr og hefði ekki gerst sekur um refsiverða háttsemi áður.

Engu að síður taldi dómurinn að ekki væri hægt að líta fram hjá því hve brotið var alvarlegt og þótti því ekki ástæða til að skilorðsbinda refsinguna að neinu leyti.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×