Innlent

Bensínbílar fari úr borgum árið 2050

Farmflutningabílum sem gefa frá sér koltvísýring skal útrýmt úr evrópskum borgarsamfélögum fyrir árið 2030. fréttablaðið/gva
Farmflutningabílum sem gefa frá sér koltvísýring skal útrýmt úr evrópskum borgarsamfélögum fyrir árið 2030. fréttablaðið/gva
Evrópusambandið hefur gefið út hvítbók í samgöngumálum og vinna EFTA-ríkin nú sameiginlega að umsögn um hana. Í hvítbókinni er að finna tíu leiðir sem unnið verður að til að ná markmiðinu um samkeppnishæft samgöngukerfi, sem nýtir endurnýjanlega orkugjafa. Markmiðið er að ná takmarkinu um sextíu prósenta samdrátt útblásturs.

Meðal þeirra leiða má nefna þróun og nýtingu nýs og sjálfbærs eldsneytis og knúningskerfa. Í því skyni á að fækka ökutækjum sem nýta sér hefðbundna orkugjafa um helming til ársins 2030 og útrýma þeim úr borgarsamfélögum fyrir árið 2050. Farmflutningabílum sem gefa frá sér koltvísýring á hins vegar að útrýma úr borgarsamfélögum fyrir árið 2030.

Endurnýjanlegt flugvélaeldsneyti á að nema fjörutíu prósentum fyrir árið 2050 og minnka á útblástur koltvísýrings frá skipum um allt að fjörutíu prósent á sama tíma.

Samkvæmt hvítbókinni á einnig að auka nýtingu samtengdra og orkusparandi flutningakerfa, svo sem járnbrauta og skipa.

Ætlunin er að koma á nýju flugleiðsögukerfi (SESAR) innan Evrópu fyrir árið 2020 og einnig á sameiginlegu evrópsku flugsvæði.

Þeir sem það vilja geta sent inn athugasemdir við umsögn EFTA-ríkjanna til innanríkisráðuneytisins.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×