Innlent

Á skilorð fyrir myndatökur í sturtuklefum

Hin dæmdu sögðu í yfirheyrslum að þeim hefði verið illvært á Húsavík eftir að málið kom upp.
Hin dæmdu sögðu í yfirheyrslum að þeim hefði verið illvært á Húsavík eftir að málið kom upp. Mynd/Vilhelm
Ungt fyrrverandi par frá Húsavík hefur í Héraðsdómi Norðurlands eystra verið dæmt í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að standa saman að nektarmyndatökum af unglingsstúlkum í upphafi ársins 2010.

Stúlkan, sem þá var í kringum átján ára aldur, tók myndirnar að höfðu samráði við kærastann, sem er nokkrum árum eldri. Stúlkan stundaði knattspyrnu með Völsungi á Húsavík og tók myndirnar af öðrum stúlkum í liðinu, bæði í búningsklefanum á Húsavík og í keppnisferðum um landið, eins og Fréttablaðið hefur greint frá. Alls fundust í fórum þeirra tveggja 64 myndir af tíu fáklæddum eða nöktum stúlkum.

Hin dæmdu báru að þau hefðu átt í erfiðleikum í sambandi sínu og í einhverju rifrildinu hefði sú hugmynd fæðst að hún tæki fyrir hann nektarmyndir af vinkonum sínum. Af því varð.

Í yfirheyrslum sögðust bæði sjá mjög eftir athæfinu. Maðurinn sagði það eftir á að hyggja hafa verið „bull“ og honum til skammar, málið hefði haft hræðileg áhrif á líf sitt og liðið ár í lífi hans hefði verið „viðbjóður“, almannarómur á Húsavík væri harður og um hann hefðu gengið sögur sem hefðu orðið til þess að hann hefði fengið hótanir, verið kýldur og hrækt á hann. Hann hefði hrakist úr bænum um tíma.

Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að brotin verði á engan hátt afsökuð sem augnabliksdómgreindarleysi. Kærastinn hafi ekki gefið stúlkunni fyrirskipanir en þau beri þó jafna ábyrgð á skipulagningunni. Þau eru því dæmd á þriggja mánaða skilorð og til að greiða átta stúlknanna 200 þúsund krónur hverri í bætur.

- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×