Innlent

Ákeyrslum á sauðfé fækkar til muna

Sú ánægjulega þróun hefur orðið í ár að ákeyrslum á sauðfé hefur fækkað stórlega.
Sú ánægjulega þróun hefur orðið í ár að ákeyrslum á sauðfé hefur fækkað stórlega.
Ákeyrslum á sauðfé á Vestfjörðum hefur stórfækkað milli ára að sögn Önundar Jónssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Vestfjörðum. Það sem af er þessu ári hafa komið upp 44 mál þessa eðlis, en þau voru 76 talsins á sama tímabili í fyrra.

Önundur bendir á að fjöldi mála segi ekki alla söguna um fjölda þess fjár sem ekið hefur verið á. Oftar en ekki sé ekið á fleiri en eina kind í senn.

„Það er þó ljóst að fjöldinn sem orðið hefur fyrir bílum í ár er mun minni heldur en í fyrra, því málin eru svo miklu færri nú.“

Önundur kveðst ekki kunna einhliða skýringu á þessari fækkun.

„Ég veit ekki hvort búfjáreignin á Vestfjarðakjálkanum hefur eitthvað breyst,“ segir hann. „Svo getur verið að ökumenn séu betur vakandi í kjölfar umræðu sem orðið hefur um þetta viðvarandi vandamál.“

Loks bendir Önundur á þá hugsanlegu skýringu að bændur hafi sleppt fénu seinna á fjall í ár heldur en árin á undan. Vorið hafi verið óvenju kalt og staðreynd sé að féð hafi verið lengur innan girðinga en undanfarin ár.

- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×