Innlent

Verkið margfaldaðist frá útboði

Leiðin frá Laugarvatni að Geysi er fjölfarin. Ferðaþjónustuaðilar hafa margir gagnrýnt tafir á verkinu sem staðið hefur í allt sumar.
Leiðin frá Laugarvatni að Geysi er fjölfarin. Ferðaþjónustuaðilar hafa margir gagnrýnt tafir á verkinu sem staðið hefur í allt sumar. Mynd/Steinunn
Sævar Eiríksson, eigandi Vélgröfunnar, er ósáttur við ummæli forsvarsmanna Vegagerðarinnar um ástæður tafa við veglagningu í Laugardal, milli Laugarvatns og Geysis. Hann segir verkið hafa margfaldast frá útboði og því ekki nema von að tafir hafi orðið á verkinu.

„Þeir hefðu betur átt að segja frá þeirri magnaukningu sem orðið hefur í verkinu. Þegar við skrifum undir verksamning er ákveðið magn í ýmsum liðum sem klára á fyrir tilsettan tíma í útboðsgönum. Á verktímanum hefur það magn margfaldast.“

Sævar tekur sem dæmi að fyllingarefni hafi aukist um 200 prósent, endafrágangur um 250 prósent og lögn stálröra, og ýmislegt því tengt, um 600 prósent. Það gefi augaleið að meiri vinna taki meiri tíma.

Þórður Tyrfingsson, deildarstjóri hjá Vegagerðinni, sagði í Fréttablaðinu í gær að það standi upp á verktakann að ljúka verkinu, en því átti að vera lokið 15. júní.

Vegurinn er mjög holóttur og illa farinn og hefur ofaníburður úr honum fokið. Þórir Garðarson, framkvæmdastjóri Iceland Excursion, gagnrýndi í Fréttablaðinu í gær að vegurinn væri mjög grófur og ekki nægilega vökvaður.

Sævar segir að fyrirtæki sitt hafi heflað veginn einu sinni til tvisvar í viku og hann hafi verið vökvaður. Auðvitað megi ýmislegt gera betur, en efnið sem í veginn sé notað komi frá Vegagerðinni. Hann keyri það einfaldlega á staðinn.

- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×