Innlent

Vilja endurskilgreina hlutverk ríkisins

Efnahagshrunið hefur orðið til þess að stjórnvöld velta nú hverri krónu í ríkiskassanum fyrir sér. Fram undan er frekari flutningur verkefna og sameining stofnana.
Efnahagshrunið hefur orðið til þess að stjórnvöld velta nú hverri krónu í ríkiskassanum fyrir sér. Fram undan er frekari flutningur verkefna og sameining stofnana. Mynd/Vilhelm
guðbjartur hannesson
Tveir ráðherrar hafa nú stigið fram og lagt til að hlutverk ríkisvaldsins verði endurmetið. Meta þurfi öll verkefni og skilgreina grunnþjónustu upp á nýtt. Sveitarfélögin munu gegna meira hlutverki í framtíðinni. Fjármálaráðherra segir grundvallarbreytinga á hlutverki ríkisins ekki að vænta.

Tveir ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, þeir Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra og Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra, hafa nú, á innan við ári, ámálgað það að endurskoðunar sé þörf á umfangi ríkisrekstrar. Ljóst er að breytingar verða á þjónustu hins opinbera á næstunni; bæði hver veitir hana og eins hver hún verður.

Árni Páll skrifaði grein í Fréttablaðið á miðvikudag þar sem hann segir ekki auðvelt að auka skattheimtu og víða sé komið að þolmörkum hvað varðar niðurskurð. „Framundan er því að taka annars konar ákvarðanir – ákvarðanir um að breyta umgjörð ríkisrekstrar og því þjónustuframboði sem ríkið ábyrgist og stendur skil á úr sameiginlegum sjóðum.“

Þetta kallast á við orð Guðbjarts, sem velti því upp í viðtali við Fréttablaðið í september síðastliðnum að hægt væri að finna ýmsar stofnanir sem gaman gæti verið að eiga, en þyrfti að reka með eins hagkvæmum hætti og unnt væri, í menningarmálum og jafnvel í öllum geirum. „Ég ætla ekki að nefna nein nöfn því að það er viðkvæmt, en í rauninni þurfum við að hugsa upp á nýtt fyrir hvað ríkið á að standa. Hvað ætlum við að tryggja og hvað ekki?“

Guðbjartur segir mikla yfirferð standa yfir innan stjórnsýslunnar um umfang þjónustu, hvaða stofnanir sé hægt að sameina og hvernig sé hægt að raða upp á nýtt. Slík vinna standi yfir í öllum ráðuneytum.

„Það þarf að hugsa ýmislegt upp á nýtt, það er óhjákvæmilegt. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það þurfi að gerast með ákveðinni varfærni, þó að það taki tíma að ná hagkvæmninni. Við erum til dæmis að vinna að heilbrigðisáætlun til tíu ára, sem er nú bara samkvæmt reglugerðum. Við erum að skoða heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu, við erum að skoða almannatryggingakerfið og við erum að skoða húsnæðismálin nánast öll sömul.

Tekjur ráði útgjöldum
steingrímur j. sigfússon
Allt þetta eru spurningar um ákveðnar kerfisbreytingar og alltaf verðum við að spyrja okkur sjálf að hví hvað við erum tilbúin að greiða og hvað er ánægjuleg viðbót og hverju við eigum bókstaflega að sleppa.“

Guðbjartur segir enga formlega vinnu standa yfir í endurskoðun á hlutverki ríkisins, umfram það sem legið hafi fyrir frá hruni; að laga þurfi ríkisútgjöldin að raunverulegum tekjum. Það þýði að alla möguleika þurfi að íhuga og velta fyrir sér hvort nauðsynlegt sé að borga fyrir viðkomandi þjónustu.

Guðbjartur telur að í samfélaginu ríki nokkur sátt um hvað það sé sem ríkið eigi að bera ábyrgð á. Almennur vilji sé til þess að menntamálin séu í höndum þess, félagsmálin öll og heilbrigðiskerfið. Einstaka þættir geti þó færst á annarra hendur og nefnir hann sem dæmi lýtaaðgerðir, en þær standa utan við samtryggingarkerfi í dag.

Óþarfa útgjöld?Guðbjartur segir að hrunið hafi neytt menn til að endurmeta hvort öll útgjöld síðustu ára hafi verið þörf. Hann nefnir uppbyggingu Háskólans í Reykjavík sem dæmi. Vissulega hafi með honum blásið ferskir vindar um háskólasamfélagið. Það sé hins vegar spurning hvort rétt hafi verið að ráðast í byggingu 10 til 12 milljarða byggingar, hinum megin flugbrautar frá Háskóla Íslands.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir aðalverkefni stjórnvalda í dag að laga ríkisreksturinn að breyttum forsendum. Menn verði einfaldlega að sníða sér stakk eftir vexti.

„Við verðum að horfast í augu við gjörbreyttan efnahagslegan veruleika. Það þýðir ekki að reyna að ljúga því að okkur að við séum ríkari en við erum, líkt og við gerðum á vitleysisárunum. Nýja viðfangsefnið er að horfast í augu við nýjan efnahagslegan veruleika og eyða ekki um efni fram. Í því er ég sammála samráðherrum mínum.“

Ekki grundvallarbreytingarSteingrímur segir þó að þetta þýði ekki grundvallarbreytingar á þeirri þjónustu sem ríkið veiti. „Þessi ríkisstjórn stendur fyrir norrænt velferðarsamfélag og öfluga þjónustu á velferðarsviði.“

Hann segir þá hagræðingar- og aðlögunarvinnu sem nú standi yfir á ríkisrekstri ekki þýða það sjálfkrafa að ríkisumsvifin minnki eða þeim verkefni sem ríkið sjái um fækki. Það sé allt annar hlutur.

Guðbjartur segir að við verkefnið fram undan verði að hafa í huga að tæta ekki í sundur þá samfélagsgerð sem við búum við. Menn verði hins vegar að vera tilbúnir að skoða hvað eigi að vera innan samtryggingar og hvað utan.

„Það er alveg ljóst að á síðustu árum voru menn að bæta inn atriðum sem eftir á að hyggja er spurning hvort hefði átt að gera. Ýmsar stofnanir hafa verið styrktar og þjónusta bætt. Við höfum tekið að okkur menntun, það er nú slagur um heilan skóla nú í augnablikinu sem er einkarekinn við hliðina en borgaður af skólagjöldum og ríkisframlögum.“

Árni Páll segir í grein sinni að dæmi séu um stofnanir sem fái framlög á fjárlögum þótt þær sinni ekki grundvallarþjónustu ríkisins. Aðrar stofnanir sinni hins vegar sambærilegri þjónustu án nokkurs ríkisframlags. Hann tiltekur ekki hvaða stofnanir um ræðir, en segir að utan um þetta verði að ná. Ekki náðist í Árna Pál við vinnslu greinarinnar.

SkipulagsbreytingarSteingrímur segir mikinn árangur hafa náðst með skipulagsbreytingum. Stofnanir hafi verið sameinaðar og þeim fækkað, sem hafi gefið góða raun. Stærri stofnanir eigi líka hægara um vik með að takast á við hagræðingu. Í því skyni nefnir hann að sú staðreynd að lögregluembættin á höfuðborgarsvæðinu voru sameinuð í eitt hafi auðveldað hagræðingu þar. Eins hafi sameining allra skattumdæma í eitt komið vel út.

„Þá höfum við náð því í gegn sem lengi vafðist fyrir mönnum, að flytja málefni til sveitarfélaganna. Það var góð hagræðingar- og skipulagsaðgerð sem hafði ekki áhrif á kostnað þjónustu eða verkefni málaflokksins. Það gerði sveitarfélögunum kleift að skipuleggja sína nærþjónustu betur, sem áður skiptist á milli sveitarfélaga og ríkisins. Málefni aldraðra eru næst á dagskrá og ég tel að sá flutningur muni einnig gefa góða raun.“

Veruleikinn bankar upp áÍ grunninn má segja að í gegnum málflutning ráðherranna þriggja skíni að efnahagslegur veruleiki Íslands hafi orðið þeim ljós. Leita verði allra leiða til sparnaðar í ríkisrekstri. Liður í því sé að skilgreina þjónustuhlutverk ríkisins og leiðarhnoðað er að eyða ekki um efni fram.

Guðbjartur segir að margir keppist nú við að ná sínum besta punkti, eins og hann var fyrir hrun, ná því sem var best fyrir viðkomandi.

„Það gildir um allar stofnanir og einstaklinga varðandi launakjör og annað. Það er hins vegar bara veruleiki sem kemur ekki aftur.“


Tengdar fréttir

Sveitarfélögin munu fá aukið hlutverk

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir viðbúið að frekari verkefni muni færast frá ríki til sveitarfélaga. Þegar rætt er um að endurskoða rekstur hins opinbera verði einnig að horfa til sveitarfélaganna; þau séu fjármögnuð með skattfé líkt og ríkissjóður. Út frá þjónustuþætti og þeirri nánd sem sveitarfélögin búi yfir sé jákvætt að flytja fleiri verkefni þangað. Hann segir að skoða verði hvort í einhverjum tilvikum sé verið að bjóða meiri þjónustu en þörf sé á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×