Innlent

Kostar sama að breyta og byggja

Kostnaður við að breyta hjúkrunarheimilinu á Víðinesi í fangelsi er svipaður og við það að byggja nýtt.
Kostnaður við að breyta hjúkrunarheimilinu á Víðinesi í fangelsi er svipaður og við það að byggja nýtt. Mynd/HAG
Kostnaður við að breyta hjúkrunarheimilinu að Víðinesi þannig að það uppfylli kröfur sem öryggis- og gæsluvarðhaldsfangelsi, er 1,9 milljarðar króna. Nýbygging kostar, samkvæmt áætlunum, rétt rúma 2 milljarða króna.

Samkvæmt upplýsingum úr innanríkisráðuneytinu gera áætlanir ráð fyrir því að árlegur rekstrarkostnaður verði 60 til 70 milljónum króna hærri við endurbreytta byggingu en nýja. Sparnaðurinn við breytingarnar tapast því aftur á 3 til 4 árum. Þá tekur um það bil ári lengri tíma að breyta húsnæðinu en byggja nýtt, þannig að vígsla nýs fangelsis mundi tefjast um eitt ár væri sú leið valin.

Fréttablaðið hefur greint frá því að fleiri kostir séu til skoðunar og í gær upplýstist að kostnaður við að breyta Vífilsstöðum í fangelsi nemur 1,8 milljarði króna.

Í byrjun vikunnar var gerð önnur úttekt á Víðinesi og því hvernig aðstaðan þar hentar sem fangelsi.

Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, sagði í Fréttablaðinu í gær að fara þyrfti í gegnum skipulagsbreytingar og að gerbreyta þyrfti eldra húsnæði, ætti að nýta það sem fangelsi. „Hugmyndir af þessu tagi eru því algjörlega út í hött.“

Fangelsismál hafa verið á borði ríkisstjórnarinnar um langa hríð, en til stendur að taka ákvörðun í málinu í þessum mánuði.

- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×