Innlent

Haustið ekki enn í kortunum

Óvissa ríkir um spár fyrir næstu helgi.fréttablaðið/anton
Óvissa ríkir um spár fyrir næstu helgi.fréttablaðið/anton
Nokkuð kólnar á landinu næstu daga. Rigning eða stöku skúrir verða í flestum landshlutum í vikunni.

„Það er spáð lægð fyrir austan landið og hún nær að draga niður svalara loft úr norðri og talsverða úrkomu á norðan- og norðaustanverðu landinu næstu tvo daga,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og bætir við að þegar líði á vikuna sé spáð rólegra veðri.

Einar segir að talsvert kalt loft sé nú í háloftunum. „Það berst til okkar kalt loft frá Grænlandi. Það hittist þannig á að kaldasta loftið á norðurhveli er hér hjá okkur,“ upplýsir Einar og tekur sem dæmi að í vikunni sé spáð sérlega miklum hlýindum norður við Svalbarða. Inntur eftir því hvort veðurspáin sýni að haustið sé á næsta leiti segir Einar að hitinn við Svalbarða sé ekki haustmerki. „Það haustar þegar kólna fer fyrir norðan okkur,“ segir Einar og bætir við að alltaf kólni hér á landi með norðanáttinni. „Íbúar á Norðurlandi þekkja það vel.“

Einar segir að nokkur óvissa ríki um veðurspár fyrir næstu helgi. „Það er spurning hvort lægð sem er í pípunum taki upp á því að vera nálægt okkur eða sunnan við Ísland og þá finnum við lítið fyrir henni.“- mmf




Fleiri fréttir

Sjá meira


×