Innlent

Segja sleggjudóma ríkja um innflutning

Farga þarf 9.000 kjúklingum í Reykjagarði í þessari viku vegna salmónellusýkingar. Fyrirtækið framleiðir Holtakjúklinga.
Farga þarf 9.000 kjúklingum í Reykjagarði í þessari viku vegna salmónellusýkingar. Fyrirtækið framleiðir Holtakjúklinga. fréttablaðið/hari
páll hilmarsson
Neytendasamtökin hafa krafist þess að tollar á innfluttar kjötvörur verði afnumdir eða í það minnsta lækkaðir. Bregðast verði við fregnum af kjötskorti í landinu.

„Það er hlálegt að ráðherra beri við fæðuöryggi varðandi ákvarðanir sínar um innflutning og háa tolla á sama tíma og skortur er á kjöti í landinu. Þetta sýnir best þær ógöngur sem núverandi stefna í landbúnaðarmálum, með höftum og ofurtollum á innfluttar landbúnaðarvörur, er komin í,“ segir í tilkynningu á heimasíðu samtakanna.

Hildur Traustadóttir, framkvæmdastjóri Félags kjúklingabænda, fullyrti í Fréttablaðinu á laugardag að framleiðendur önnuðu innlendri eftirspurn. Ekki hafi verið skortur á kjúklingakjöti en sala á kjöti hafi almennt minnkað undanfarið.

Páll Hilmarsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs Innness, segir þetta fráleitar fullyrðingar. Minni kjötsölu megi rekja til minni almennrar neyslu í kjölfar hrunsins. Innnes er með um 30 prósenta markaðshlutdeild í innfluttu kjúklingakjöti.

„Það þarf ekki að horfa lengra aftur en til ársins í ár og fyrra til að finna dæmi þess að salmónellusýking hafi valdið skorti á kjúklingakjöti. Við mótmælum því þessum fullyrðingum harðlega.“

Hildur sagði á laugardag að ef innflutningur yrði aukinn þyrftu innlendir framleiðendur að fá leyfi til að auka magn innblöndunarefna í kjúklingi og fullyrti að hér á landi mættu þau vera tíu prósent vörunnar, en 20 prósent erlendis.

Jónína Þ. Stefánsdóttir, sérfræðingur á Matvælastofnun, segir að samkvæmt reglugerð verði að taka það fram ef magn vatns í frosnu kjöti fer yfir tíu prósent og yfir fimm prósent í soðnu kjöti.

Páll segir aðeins tíu prósent vatns í bringum fyrirtækisins, líkt og sjá megi á umbúðum. Það lýsi því sleggjudómum að láta að því liggja að í innfluttum kjúklingum séu 20 prósent af vatni. Þá segir hann það þekkjast í innlendri framleiðslu að vatn fari yfir tíu prósent, innlendir kjúklingabændur hafi boðið fyrirtækinu kjúkling með 17 prósenta vatnshlutfalli.

kolbeinn@frettabladid.is

KJÚLLI KLILPPA ÚT INN Í TEXTA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×