Innlent

Þurfa á milli 30 og 50 sjálfboðaliða

Guðrún Jónsdóttir
Guðrún Jónsdóttir
Stígamót eru nú að setja á laggirnar nýtt námskeið fyrir sjálfboðaliða sem munu starfa í nýju athvarfi fyrir þolendur vændis og mansals. Athvarfið verður opnað í byrjun september. Sjálfboðaliðar munu starfa við viðveru og þátttöku í daglegu lífi athvarfsins og telur Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, að samtökin þurfi á milli 30 og 50 konur til starfa.

Guðrún segir ástæðu námskeiðsins vera þá að Stígamót vilji að þjónustan í athvarfinu verði sem allra best, þrátt fyrir að ekki sé til fjármagn til að ráða inn starfsfólk á launum.

„Við vitum um fjölda kvenna sem vill láta gott af sér leiða og eru með þekkingu og reynslu sem reynist vel þarna,“ segir Guðrún.

„En við viljum líka undirbúa sjálfboðaliðana fyrir það sem þær eiga í vændum og tryggja að konunum sem nýta sér þjónustuna verði sýnd virðing og samstaða.“

Námskeiðið samanstendur af sex fyrirlestrum þar sem meðal annars verður rætt um vændi hér á landi og erlendis, tengsl vændis og kynferðisofbeldis og reynsluna af athvörfunum í Danmörku.

Gistipláss verður fyrir sex til sjö konur og telur Guðrún ekki ólíklegt að samstarf við Kvennaathvarfið muni eiga sér stað ef rými þar verður af skornum skammti. Stígamót munu opna athvarfið formlega 2. september næstkomandi.

- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×