Innlent

Stígandi í sölu nýrra bíla

Verð á nýjum fólksbílum hefur lækkað frá því að það snarhækkaði eftir hrun.
Verð á nýjum fólksbílum hefur lækkað frá því að það snarhækkaði eftir hrun. fréttablaðið/pjetur
Fyrstu sjö mánuði þessa árs voru skráðir 3.500 nýir fólksbílar á Íslandi. Þar af voru 2.145 bílaleigubílar, samkvæmt upplýsingum frá Bílgreinasambandinu. Einstaklingar hafa þess vegna keypt 1.355 nýja fólksbíla á tímabilinu.

Allt árið í fyrra keypti almenningur 1.266 nýja fólksbíla og bílaleigurnar 1.840. Nýskráðir bílar voru alls 3.106 talsins.

„Verð á nýjum bílum hefur staðið í stað eða jafnvel lækkað ef eitthvað er frá því að það snarhækkaði í byrjun árs 2009 vegna falls krónunnar,“ segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.

„Menn hafa unnið hörðum höndum að því hér heima að ná betri samningum við sína birgja úti. Ef eitthvað bjátar á hjá viðskiptavinum reyna birgjar að koma til móts við þá. Menn hafa lagt mesta áherslu á þessa miðlungsbíla sem henta fjöldanum. Það hefur náðst bestur árangur við að knýja fram lækkun á þeim,“ greinir Özur frá.

Í Evrópusambandslöndunum lækkaði verð á nýjum bílum að meðaltali um 2,5 prósent frá janúarmánuði í fyrra til janúarmánaðar í ár.

- ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×