Innlent

Milljarðar í húfi og hundruð starfa vegna gengisúrskurðar

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur komst í dag að þeirri niðurstöðu að gengistryggðir fjármögnunar-leigusamningar væru ólöglegir. Milljarðar króna eru í húfi og hundruð starfa, segja Samtök Iðnaðarins.

Gengistryggðir fjármögnunarleigusamningar voru gerðir áður en gengi íslensku krónunnar hrundi 2008 til að fjármagna kaup fyrirtækja á atvinnutækjum, svo sem flutningabílum, gröfum og öðrum tækjum.

Fyrirtækið kraftvélaleigan gerði slíkan samning við Íslandsbanka fyrir hrun. Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í dag segir að samningurinn, sem gerður hafi verið milli Kraftvélaleigunnar og Íslandsbanka, hafi verið lánssamningur í íslenskum krónum og hafi verið gengistryggður. Því sé samningurinn ólöglegur.

Samtök Iðnaðarins fagna úrskurðinum.

„það eru mörg fyrirtæki sem eiga allt undir því að geta farið af stað í endurreisninni, þetta er gott start til að byggja upp að nýju, get ekki sagt til um hvort það eru hundruðir eða þúsundir starfa en það er mikið í húfi," segir Árni Jóhannsson, forstöðumaður mannvirkjasviðs Samtaka Iðnaðarins.

Dómurinn varði flest öll iðnfyrirtæki í landinu sem hafa verið að fjármagna tæki og tól.

„Það eru mörg fyrirtæki sem að berjast í bökkum, eru með neikvæða eiginfjárstöðu, þetta getur örugglega hjálpað mjög mörgum þeirra til að snúa þeirri þróun við í jákvæða eiginfjárstöðu og vonandi að þau nái áttum sínum og geti byggt sig upp að nýju," segir Árni.

Íslandsbanki hyggst áfrýja málinu Hæstaréttar. Árni vonast til að niðurstaða verði komin í byrjun sumars. Hjá Íslandsbanka eru samningarnir fjögur þúsund talsins. Önnur fjármögnunarfyrirtæki sem gert hafa svona samninga eru meðal annars SP fjármögnun og Lýsing en ekki náðist í forsvarsmenn þeirra fyrir fréttatímann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×