Innlent

Falsaðir fimmþúsundkallar í umferð

Undanfarnar vikur hefur nokkuð borið á því að fölsuðum 5.000 kr. peningaseðlum hefur verið komið í umferð á höfuðborgarsvæðinu. Að sögn lögreglu hefur sjaldnast uppgötvast að um falsaða seðla sé að ræða fyrr en við uppgjör á sjóðvélum eða við innlegg í banka.

„Hefur flestum þessara seðla verið komið í umferð á veitingastöðum þar sem auðvelt getur reynst að láta blekkjast þegar mikill erill er,“ segir í tilkynningu frá lögreglu sem beinir þeim tilmælum til afgreiðslufólks að vera á varðbergi vegna þessa og hvetur jafnframt til þess að þeir sem eru í afgreiðslustörfum kynni sér helstu öryggisþætti íslenskra peningaseðla á heimasíðu Seðlabanka Íslands.

„Samkvæmt 151. gr. almennra hegningarlaga þá skal hver sem lætur út peninga, sem hann veit að eru falsaðir, sæta sömu refsingu sem hann hefði sjálfur falsað þá. En refsingin fyrir peningafals er fangelsi allt að 12 árum,“ segir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×