Innlent

Hraðbraut gerir menntamálaráðherra nýtt tilboð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólafur Johnson rekur Hraðbraut. Mynd/ Stefán.
Ólafur Johnson rekur Hraðbraut. Mynd/ Stefán.
Forsvarsmenn Menntaskólans Hraðbrautar vilja gera nýjan þjónustusamning við menntamálaráðuneytið um að skólinn taki inn allt að 120 nemendur á fyrra námsár 2011-2012. Þetta verði til viðbótar þeim samningi sem fyrir liggur um skólastarf á síðara námsári veturinn 2011-2012. Greiðsla vegna hvers ársnemanda í námi verði 480 þúsund krónur. Segja forsvarsmenn skólans að sú upphæð sé mun lægri en lægstu greiðslur sem þekkjast til annarra framhaldsskóla í landinu.

Ríkisendurskoðun gaf á dögunum út svarta skýrslu um Menntaskólann Hraðbraut. Þar kom meðal annars fram að á tímabilinu 2003 til 2009 hafi arðgreiðslur Menntaskólans Hraðbraut til eigenda hans numið samtals 82 milljónum króna. Ríkisendurskoðun taldi að skólinn hafi í raun ekki haft fjárhagslegt bolmagn til að greiða þennan arð. Einnig kom fram í skýrslu ríkisendurskoðanda að lán skólans til aðila tengdra eigendum hans hafi numið samtals 50 milljónum króna í árslok 2009.

Eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út ákvað menntamálaráðuneytið að endurnýja ekki samning við skólann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×