Innlent

Doktorsnemum fjölgar - fjórðungur útlendingar

Nemendum á doktorsstigi hefur fjölgað ár frá ári hér á landi. Þeir voru 14 haustið 1997 en eru 478 haustið 2010. Nemendum á doktorsstigi hefur fjölgað í yngri aldurshópunum sem bendir til þess að fleiri fari í doktorsnám fljótlega að loknu meistaranámi. Frá 1998 til 2006 voru doktorsnemar flestir á aldrinum 30-34 ára en frá 2007 er aldurshópurinn 25-29 ára stærstur. Konur hafa verið í meirihluta meðal doktorsnema frá árinu 2001 og eru 58,2% þeirra haustið 2010. Tæplega fjórðungur (23,4%) doktorsnema eru útlendingar, flestir frá öðrum Evrópulöndum.

Þetta kemur fram í samantekt Hagstofu Íslands.

Tveir af hverjum þremur nemendum á meistarastigi eru konur

Nemendum á meistarastigi hefur einnig fjölgað ár frá ári. Þeir voru 383 haustið 1997 en eru 4.243 haustið 2010. Tveir af hverjum þremur nemendum á meistarastigi eru konur, eða 66,7% nemenda. Nemendum í námi til grunnsprófs á háskólastigi, t.d. Bachelor gráðu eða diplóma gráðu hefur fjölgað síðustu tvö ár eftir að hafa fækkað lítillega á árunum 2004-2008. Nemendur sem stunda nám til grunnprófs hafa aldrei verið fleiri eða 14.005. Þá voru 143 nemendur í stuttu hagnýtu námi á háskólastigi og hefur fækkað lítillega síðustu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×