Innlent

Vísaði ekki Icesave til þjóðarinnar til að auka vinsældir sínar

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ef menn halda að ég sé að sækjast eftir því að vera í sviðljósinu, þá get ég sagt þér að ég er löngu búinn að fá nóg af því, sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í viðtali við Sigurjón M. Egilsson í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni, fyrir stundu.

Sigurjón spurði Ólaf út í þær ákvarðnir sem hann hefur tekið í Icesavemálunum, að vísa tveimur samningum til þjóðarinnar. Sigurjón sagði að sumir segja að hann hafi gert það til að auka vinsældir sínar. Ólafur sagði að það væri ekki rétt. „Það er auðvitað kenning sem er svo sem í lagi að menn setji fram en hún er ekki mjög skynsamleg. Því fórnarkostnaðurinn í þessum ákvörðunum er mikill. [...] Það er alröng mynd að ég taki ákvarðanir eftir vinsældarmælikvarða því sá sem lendir í þeirri aðstöðu að taka þessa ákvörðun horfir á áhættuna, óvissuna og deilurnar sem hún hlýtur að skapa. Hann fer ekki að hugsa um sínar eigin vinsældir," sagði Ólafur.

Sigurjón benti á að eftir efnahagshrunið haustið 2008 hafi vinsældir hans ekki verið miklar en síðan þá hafi þær vaxið mikið. Ólafur undirstrikaði að hann hefði ekki tekið ákvarðanirnar í Icesavemálunum til að auka vinsældir sínar. „Og ef þú skoðar skoðanakannanir eftir að ég tók ákvörðunina þá voru margir á móti mér," sagði hann ennfremur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×