Innlent

Forsetinn fjölgar utanlandsferðunum

Ólafur Ragnar Grímsson
Ólafur Ragnar Grímsson
Forseti Íslands var tæplega 80 daga á ferðalögum erlendis á síðasta ári og hefur verið 22 daga erlendis af 66 á þessu ári. Ferðadögunum fækkaði verulega í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 en hefur nú fjölgað aftur.

Utanlandsferðum Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, er nú farið að fjölga aftur, en hann dró verulega úr ferðalögum í kjölfar bankahrunsins. Forsetinn hefur verið erlendis í 22 daga af þeim 66 sem liðnir eru af árinu.

Forsetinn hefur verið þriðjung þess hluta ársins 2011 sem liðinn er erlendis. Hann hefur farið í þrjár ferðir sem staðið hafa í samtals 22 daga. Hann er nú staddur á Ítalíu eftir fund með Benedikt XVI páfa.

Ólafur fór alls tólf sinnum af landi brott á síðasta ári, og var erlendis í samtals 79 daga samkvæmt samantekt Fréttablaðsins. Tíu ferðir sem stóðu í samtals 56 daga voru vegna opinberra erinda og kostaðar af skattgreiðendum.

Tvær ferðir sem stóðu í alls 23 daga voru farnar í einkaerindum og greiddi Ólafur Ragnar allan kostnað við þær úr eigin vasa, samkvæmt upplýsingum frá embætti forseta Íslands.

Á ferðalögum sínum í opinberum erindagjörðum á síðasta ári heimsótti forsetinn samtals tíu lönd. Hann fór þrisvar til Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Þá heimsótti hann Austurríki, Grænland, Indland, Indónesíu, Kína, Portúgal, Rússland, Sviss og Svíþjóð það árið.





Ferðalög forsetans á síðasta ári eru umtalsvert fleiri og lengri en árið 2009. Þá fór forsetinn í níu utanlandsferðir og eyddi 53 dögum í útlöndum. Þar af voru átta ferðir í opinberum erindagjörðum sem stóðu í 44 daga.

Þegar forseti Íslands er erlendis fara forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar með forsetavald. Fyrir það fá þeir greiðslur frá embætti forseta Íslands, þriðjung af launum forseta hver. Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu er gert ráð fyrir þessum útgjöldum í fjárveitingum til forsetaembættisins.

Þó utanlandsferðum forsetans hafi fjölgað aftur eru ferðalögin, dagarnir sem hann eyðir erlendis, ekki nálægt því að vera jafn margir og árið 2007, þegar hann var ríflega þriðjung ársins erlendis.

Árið 2007 fór Ólafur Ragnar sautján sinnum til útlanda, þar af þrettán sinnum í embættiserindum. Samtals var hann 131 dag erlendis, þar af 106 við skyldustörf.

Fyrri hluta árs 2008 sáust ekki miklar breytingar á ferðalögum forsetans. Ólafur fór tólf sinnum til útlanda árið 2008, þar af einu sinni í einkaerindum. Hann var samtals 91 dag erlendis, þar af ellefu á eigin vegum.

Eftir bankahrunið í byrjun október 2008 fór hann aðeins einu sinni til útlanda það sem eftir var ársins, og það var í einkaerindum en ekki í opinberum erindagjörðum. Ólafur fór raunar ekki af landi brott í embættiserindum fyrr en í maí 2009 þegar hann sótti smáþjóðaleikana á Kýpur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×