Innlent

Segja tillögurnar litlu skila

Líf Magneudóttir
Líf Magneudóttir
Fulltrúar minnihlutans í menntaráði Reykjavíkurborgar telja að lítill fjárhagslegur ábati verði að fyrirhuguðum sameiningum og hagræðingu í skólakerfi borgarinnar sem kynnt verða í borgarráði í dag.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í menntaráði, segir meðal annars í grein í Fréttablaðinu í dag að hugmyndirnar sem fram eru komnar feli aðeins í sér hálfs prósents lækkun á útgjöldum borgarinnar til grunnskóla, leikskóla og frístundaheimila, þegar hagræðingin er að fullu komin til framkvæmda. Fyrir utan það, átelur minnihlutinn þær hugmyndir sem fram eru komnar og segir fagleg vinnubrögð fyrir borð borin.

Líf Magneudóttir, fulltrúi Vinstri grænna í menntaráði, segir í samtali við Fréttablaðið að ávinningurinn af breytingunum sé óverulegur. Þá sé hún óánægð með vinnuferlið og svartsýn með árangur þar sem meirihlutinn sé ekki að vinna í sátt við fagaðila.

„Það er ekki svo mikið sem sparast miðað við það rask sem verður á starfinu í skólunum. Tal meirihlutans um fagleg sjónarmið eru eftiráskýringar, því þau eru að ráðast í þetta einvörðungu til að skera niður en ekki til að bæta faglegt starf, þrátt fyrir yfirlýsingar um faglegan ávinning og tækifæri. Við í Vinstri grænum hefðum viljað hagræða alls staðar annars staðar en á mennta- eða velferðarsviði."

Þorbjörg Helga segir í grein sinni að „þegar öllu er til tjaldað ætlar vinnuhópurinn að sameiningar skóla sem lagðar eru til lækki heildarútgjöld leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila ekki nema um hálft prósent þegar hún er komin fram að fullu árið 2014. Slík hagræðing réttlætir engan veginn það rask og óróa sem óumflýjanlegt er í skólum og frístundaheimilum borgarinnar í kjölfarið."

Hún bætir því við að faglegur ávinningur, sem var ein af forsendum verkefnisins, sé enn óljós. „Farsælast hefði verið að viðurkenna í skýrslunni að enginn trygging sé fyrir því að faglegur ávinningur náist fram með sameiningu skóla." Meirihlutinn hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 13 í dag þar sem áætlanirnar verða kynntar.

thorgils@frettabladid.is

SAmeiningar kynntar Meirihlutinn í borgarstjórn mun kynna tillögur sínar til hagræðingar í skólakerfinu í dag. Minnihlutinn segir óverulegan ávinning af aðgerðunum.Fréttablaðið/Stefán



Fleiri fréttir

Sjá meira


×