Innlent

180 íslenskir strandaglópar á grískri eyju

Mótmælendur flýja táragas. Myndin er tekin í Aþenu í dag.
Mótmælendur flýja táragas. Myndin er tekin í Aþenu í dag. Mynd/AP
Um 180 ferðalangar á vegum íslensku ferðaskrifstofunnar Vita eru nú strandaglópar á eyjunni Korfú undan ströndum Grikklands vegna alsherjarverkfalls sem verkalýðsfélög landsins hófu í gær. Einn ferðalanganna segir þó fína stemmningu í hópnum og gerir ráð fyrir að komast heim á fimmtudag.

"Hér erum við í nærri 30 stiga hita og vorum að fá þær fréttir í gegnum netið að það væri búið að aflýsa flugi hingað í dag, en það er náttúrulega vegna þess að nú er allsherjarverkfall hér á Grikklandi" segir Jón Óli Sigurðarson einn farþega sem staddur var á hóteli í Korfú þegar við náðum á hann. Hann segir að í gær hafi átt að reyna að flýta flugi frá Íslandi til þess að ná í hópinn en það hafi greinilega ekki tekist. Hann bíði nú fregna frá fararstjóra hópsins sem hafi í nógu að snúast.

Verkfallið mun standa yfir í tvo sólarhringa, en það hófst skömmu eftir að George Papandreou, forsetisráðherra landsins, hvatti gríska þingið til að samþykkja nýjar aðhaldsaðgerðir. Búist er við að mikill fjöldi fólks muni safnast saman í dag í Aþenu til að mótmæla fyrirætlunum stjórnvalda.

Fari svo að gríska þingið samþykki ekki hinar nýju aðhaldsaðgerðir mun Grikkland ekki fá áframhaldandi neyðaraðstoð frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Atkvæði verða greidd um málið á gríska þinginu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×