Innlent

Fréttaskýring: Samskipti leik- og grunnskóla við trúfélög

Í tillögum mannréttindaráðs segir að fulltrúar trúarhópa megi ekki heimsækja skóla á skólatíma komi þeir í trúarlegum tilgangi. Mynd/Vilhelm
Í tillögum mannréttindaráðs segir að fulltrúar trúarhópa megi ekki heimsækja skóla á skólatíma komi þeir í trúarlegum tilgangi. Mynd/Vilhelm
Hvernig standa tillögur mannréttindaráðs um samskipti kirkju og skóla eftir umsagnaferli?

Breytingartillögur mannréttinda-ráðs Reykjavíkurborgar varðandi samskipti leik- og grunnskóla við trúfélög hafa nú fengið umfjöllun hjá velferðarráði, menntaráði og íþrótta- og tómstundaráði borgarinnar. Ráðin fengu tillögurnar á sín borð í lok síðasta árs en Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkur hefur umsjón með endanlegum tillögum, sem bíða afgreiðslu borgarráðs.

Töluverðar breytingar hafa verið gerðar á tillögum mannréttindaráðs frá því að þær voru fyrst lagðar fram. Eftir umsagnarferli ráðanna þriggja hafa enn fleiri aðlaganir verið gerðar.

Anna Kristinsdóttir, mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar, telur ólíklegt að borgarráð muni gera enn frekari breytingar á tillögunum.

„Mér finnst það nokkuð langsótt, þar sem málið hefur nú lokið öllu sínu umsagnarferli,“ segir Anna. „Svo verður það okkar hlutverk hjá Mannréttindaskrifstofu að sjá til þess að reglunum verði fylgt eftir, verði þær samþykktar.“

Anna segir það afar mikilvægt fyrir stjórnendur leik- og grunnskóla að setja reglur sem þessar. Mannréttindaskrifstofa fái mikið af fyrirspurnum og athugasemdum um þessi mál, bæði frá starfsfólki skólanna og foreldrum.

„Þetta er á báða bóga. Það er ekki eintóm sæla og ánægja með það að verið sé að koma með trúmál inn í skólana. Það er líka erfitt fyrir þá stjórnendur sem hafa ákveðið að hleypa prestum ekki inn í starfið og það er meðal annars vegna þess sem það er mikilvægt að setja skýrar reglur.“

Í mannréttindastefnu Reykjavíkur, sem samþykkt var árið 2006, er meðal annars kveðið á um að íbúum verði ekki mismunað eftir lífs- og trúarskoðunum.

Mannréttindaráð segir í tillögu sinni að lagt sé til að reglurnar verði samþykktar í ljósi niðurstöðu skýrslu frá árinu 2007 þar sem fram kom að móta þyrfti skýrar starfsreglur um samskipti trúar- og lífsskoðunarhópa og skóla Reykjavíkurborgar.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×