Innlent

Flugið ódýrara en rútuferð

Framkvæmdastjóri Sterna segir að þrátt fyrir mikinn afslátt sé erfitt að fá fólk til að ferðast með rútum. Mynd/GVA
Framkvæmdastjóri Sterna segir að þrátt fyrir mikinn afslátt sé erfitt að fá fólk til að ferðast með rútum. Mynd/GVA
Töluvert dýrara er að ferðast á milli Akureyrar og Reykjavíkur með rútu en með Flugfélagi Íslands. Ódýrasta flugfargjaldið á milli bæjarfélaganna er 7.990 krónur en rútuferðin með fyrirtækinu Sterna, sem er eina hópferðafyrirtækið sem sinnir þessum leiðum, kostar 11.000 krónur. Flugtími á milli er um 45 mínútur en rútuferðin tekur um sex klukkustundir.

Rúturnar taka mest um fimmtíu farþega í sæti og segir Óskar Stefánsson, framkvæmdastjóri Sterna, að afar fátítt sé að bílarnir séu fullsetnir. „Það er virkilegt happdrætti hvort við fáum fimmtíu manns,“ segir hann. Meðalfjöldi farþega í ferðunum sé um fimmtán.

Meðalrúta fer með um 130 lítra af eldsneyti á leiðinni á milli Akureyrar og Reykjavíkur, sem gerir um 31.000 krónur fyrir fyrirtækið. Bílstjóri fær greitt fyrir tíu klukkustunda vinnu og segir Óskar að þegar allt sé dregið saman sé kostnaður fyrirtækisins um 100 þúsund krónur fyrir hverja ferð.

Á síðasta ári bauð Sterna fimmtíu prósenta afslátt af öllum fargjöldum. Óskar segir það þó ekki hafa virkað sem skyldi og hefur ekki trú á því að hægt sé að kaupa fólk í rúturnar með lágum fargjöldum. Árið 2009 var rukkað fullt gjald og var farþegatalan það ár hærri en í fyrra.

„Þetta virkaði ekki. Ég held að við séum orðin svo háð einkabílum og öðrum samgönguleiðum,“ segir hann. „Við ráðum ekkert við þessa samkeppni.“

Fokker 50-vélar Flugfélags Íslands taka fimmtíu manns í sæti og eru það algengustu vélarnar sem fljúga á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Leiguflug á milli staða kostar um 350 þúsund krónur og séu öll sæti seld er kostnaðurinn á mann 7.000 krónur. Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, segir það færast í aukana að stórir hópar nýti sér flugferðir á milli staða. Árni segir þó að eldsneytisverð bitni mikið á flugfélögunum og sá kostnaður vegi mjög þungt.

„Um tuttugu prósent af okkar kostnaði eru eldsneyti og um leið og olíuverð hækkar lendir það alveg jafn mikið á okkur og hinum almenna neytanda,“ segir hann. „En við erum að reyna að halda aftur af verðhækkunum, sem virðist vera að bera þann árangur að farþegum fjölgar.“- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×