Innlent

Gerir heimildarmynd um Gauja Þórðar

„Ég vinn þetta bara í hjáverkum, ég gríp í þetta þegar tækifæri gefst til," segir Trausti Salvar Kristjánsson, knattspyrnuáhugamaður með meiru. Hann vinnur að heimildarmynd um Guðjón Þórðarson, núverandi þjálfara BÍ/Bolungarvíkur.

Trausti var á vellinum þegar BÍ/Bolungarvík vann óvæntan sigur á liði Íslandsmeistaranna í Breiðabliki í Valitor-bikarkeppninni í síðustu viku. Hann var með myndavél festa við varamannaskýlið og gat með því móti náð öllum svipbrigðum Guðjóns þegar leikar stóðu hæst.

„Ég hef einnig fengið að fara með tökuvélina inn í klefa í hálfleik," segir Trausti, en hann byrjaði að fylgjast með Guðjóni þegar undirbúningstímabil BÍ/Bolungarvíkur stóð sem hæst. Trausti vonast til að heimildarmyndin gefi skýra mynd af öllum ferli Guðjóns og hann langar til að kafa ofan í persónu þjálfarans. „Hann er náttúrulega mjög umdeild persóna og þjálfari. Þetta er því ekki bara heimildarmynd um knattspyrnuþjálfarann Guðjón Þórðarson heldur einnig um pabbann, eiginmanninn og manneskjuna sjálfa."

Trausti Salvar Kristjánsson hyggst kafa ofan í persónuna Guðjón Þórðarson, sem hefur verið stöðugt á milli tannanna á Íslendingum.
Guðjón er eflaust einn þekktasti knattspyrnuþjálfari landsins; hann gerði lið KA og ÍA að Íslandsmeisturum og KR að bikarmeisturum. Hann var einnig farsæll sem landsliðsþjálfari og reyndi fyrir sér á enskri grund, meðal annars hjá Stoke og Barnsley, áður en hann sneri aftur heim.

Guðjón sagðist sjálfur lítil deili vita á þessu verkefni í samtali við Fréttablaðið. „Þetta er blint stefnumót við framtíðina," segir Guðjón og bætir því við að ekki sé búið að skrifa neitt handrit.- fgg

dddd




Fleiri fréttir

Sjá meira


×