Innlent

Þrýst á markvissari viðræður

Innan SGS eru 19 aðildarfélög með um 53 þúsund félagsmenn. SGS er stærsta landssamband ASÍ. fréttablaðið/vilhelm
Innan SGS eru 19 aðildarfélög með um 53 þúsund félagsmenn. SGS er stærsta landssamband ASÍ. fréttablaðið/vilhelm
Samninganefnd Starfsgreinasambandsins ákvað á fundi í gær að vísa kjaradeilu sambandsins við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara. Að mati samninganefndarinnar hefur hægt miðað og því sé mikilvægt að þrýsta á um markvissari viðræður sem leiddar verði af ríkissáttasemjara. Er það von Starfsgreinasambandsins að það skili kjarasamningi aðila í höfn frekar fyrr en síðar.

Björn Snæbjörnsson, formaður samninganefndar Starfsgreinasambandsins, segir að nú sé það sáttasemjara að stjórna áframhaldi viðræðna á milli Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins. „Framhaldið er í verkstjórn sáttasemjara. Eitthvað hefur þetta þokast en við viljum hraða þessu þar sem langur tími er síðan samningar voru lausir. Það er ekki þar með sagt að þetta komi bara einn, tveir og tíu," segir Björn.

Rætt hefur verið um samræmda launastefnu á vinnumarkaði, eða að verkalýðshreyfingin fari með sameiginlega kröfugerð á hendur atvinnurekendum. Eins og Fréttablaðið skýrði frá í gær telja forsvarsmenn einstakra verkalýðsfélaga að slíkt komi ekki til greina. Samkvæmt heimildum blaðsins eru félög tilbúin til að draga samningsumboð Starfsgreinasambandsins til baka verði slík leið valin.

Björn segir að þessi hugmynd hafi verið rædd á fundinum í gær en ákveðið hafi verið að hvert og eitt félag ræði þetta í sínum röðum áður en ákvörðun verður tekin. Samninganefndin fundar aftur á föstudaginn þar sem málið verður tekið fyrir að nýju.- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×