Innlent

Aðbúnaður dýra í íslenskum landbúnaði - málþing

Mynd úr safni/ gva
Dýraverndunarsinnar, framleiðendur búfjárafurða, bændur og dýralæknar koma saman á málþingi þann 26. apríl til að ræða aðbúnað dýra í íslenskum landbúnaði.

Mikil vakning hefur orðið í þessum málaflokki að unfandörnu og umræða sprottið um hvernig farið er með dýr á íslenskum búum.

Málþingið fer fram í Norræna húsinu milli klukkan 20 og 23.

Dagskrá er sem hér segir:

Sjónarmið neytenda - Linda Pétursdóttir

Ódýr matur ,dýrkeypt blekking - Ólafur Dýrmundsson frá Dýraverndarsamtökum Íslands

Velferð dýra - Íris Lilja Ragnarsdóttir og Sif Traustadóttir

Aðgangur að lífrænu hráefni - Oddný Anna Björnsdóttir

Pallborð eftir erindin:

Frummælendur, ásamt Kristjáni Oddssyni bónda og Geir Gunnari Geirssyni frá Stjörnugrís hf.


Tengdar fréttir

Kúabú sektað fyrir brot á dýraverndarlögum

Kúabú á Norðurlandi hefur verið sektað um 50 þúsund krónur að vanrækja að tryggja kúnum á búinu lögbundna átta vikna útiveru yfir árið. Matvælastofnun Íslands kærði níu kúabú til lögreglunnar fyrir brot á reglum um nautgripahald og lög um dýravernd. Kærurnar voru lagðar fram til lögregluembætta víðs vegar um landið í lok nóvember þar sem rökstuddur grunur var um að níu kúabú hefðu vanrækt að tryggja kúnum lögbundna útiveru. Rannsókn stendur enn yfir í sex málanna en rannsókn er ekki hafin í einu þeirra.

Fjalli um geldingar á svínum

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað starfshóp til að leysa úr þeim vanda sem steðjar að svínarækt í landinu. Hópnum er m.a. ætlað að fjalla um aðbúnað og meðferð svína.

Kýr lokaðar inni árið um kring - bíta aldrei ferskt gras

Mjólkurkýr eiga samkvæmt reglugerð að fá átta vikna útivist á ári. Því er leyfilegt að þeim sé haldið inni samfellt tíu mánuði á ári. Þó er misbrestur á því að þær fái þessa tveggja mánaða útivist sem þeim ber, eins og Vísir greindi frá fyrr í dag en Matvælastofnun hefur kært níu kúabú til lögreglunnar fyrir að brjóta þessar reglur.

Matvælastofnun kærir níu kúabú fyrir brot á lögum um dýravernd

Matvælastofnun Íslands hefur kært níu kúabú til lögreglunnar fyrir brot á reglugerð um nautgripahald og lögum um dýravernd. Kærurnar koma til vegna þess að búin hafa vanrækt að tryggja kúnum átta vikna útivist á ári. Þetta er í fyrsta sinn sem kærur af þessu tagi eru lagðar fram hér á landi. Ekki fæst uppgefið um hvaða kúabú er að ræða en þau eru öll enn með fulla starfsemi og selja afurðir sínar til íslenskra neytenda. Kærurnar voru lagðar fram í gær.

Grísir geltir á sársaukafullan hátt án deyfingar

Á Íslandi eru karlkyns grísir geltir án deyfingar eða verkjastillingar. Starfsmaður svínabúsins sker þá í punginn og slítur eistun út. Aðgerðin er gríðarlega sársaukafull fyrir grísina. Kjöt geltra grísa er án sérstaks bragð og lyktar sem getur komið af ógeltum grísum og er það megin ástæðan fyrir geldingunni.

Bíða eftir myndum úr kjúklingabúum Matfugls

Starfsfólk Matfugls vinnur nú hörðum höndum að því að svara hópi áhugafólks um velferð dýra sem hefur á Facebook-síðu Matfugls óskað eftir myndum sem teknar eru inni í kjúklingabúum Matfugls til að neytendur geti betur áttað sig á aðstæðum á íslenskum kjúklingabúum. Sirrý Svöludóttir, markaðsstjóri Yggdrasils ehf., setti fyrst inn fyrirspurn til Matfugls þar sem hún sagðist vilja sjá aðstæður með eigin augum þar sem umræðan um verksmiðjubúskap hefur verið hávær að undanförnu. Fjöldi fólks hefur í kjölfarið tekið undir með Sirrý og óskað eftir bæði upplýsingum og myndum. Sigurveig Káradóttir, matgæðingur sem gert hefur úttekt á gæðum hráefnis í mötuneytum skóla, leggur einnig orð í belg. „Hef líka áhuga á að vita meira um hvernig málum er háttað hér á landi. Og að fá almennt frekari upplýsingum frá framleiðendum um aðbúnað dýra og eins þau aukaefni sem sett eru í matinn og af hverju þau eru sett. Hér er að vakna upp hópur sífellt kröfuharðari neytenda, og í raun kjörið tækifæri fyrir þá framleiðendur sem vilja fylgja þeirri jákvæðu þróun eftir að vakna strax til meðvitundar og koma til móts við þann hóp," segir hún. Sirrý heldur úti vefsíðu sem hún kallar „Lífrænt vottað blogg" þar sem hún greinir frá fyrirspurn sinni til Matfugls. http://svoludottir.wordpress.com/2011/04/09/kjuklingabu-a-facebook/ Facebook-síðu Matfugls má finna hér en þar kemur fram að búist er við að þeir séu að vinna að svörum og búist við að birta þau á síðunni á morgun. http://www.facebook.com/#!/pages/Matfugl-ehf/468525455393

Salmonellusýkt kjúklingafóður - sprenging í fjölda sýktra kjúklinga

Gríðarleg aukning hefur verið á salmonellusmitum í kjúklingi á þessu ári. Það sem af er árs hefur 21 sláturhópur verið innkallaður vegna rökstudds gruns um salmonellusmit, sem eru um þrjú prósent allra sláturhópa. Í liðinni viku innkölluðu bæði Reykjargarður og Matfugl kjúkling úr verslunum vegna salmonellu.

Svínabú vilja aðgang að deyfilyfjum

„Hér er þetta bara eins og hjá öllum öðrum svínabúum á Íslandi. Það er bara þessi hefðbundni háttur á að gelda grísi sem hefur verið viðhafður hér í tugi ára. Við höfum ekki aðgang að neinum deyfilyfjum,“ segir Geir Gunnar Geirsson, framkvæmdastjóri Stjörnugríss sem er stærsta svínabú á landinu.

Matfugl svarar neytendum: Enginn fugl í búri

„Hluti neytenda gerir kröfu til þess að geta keypt ómeðhöndlaðar kjúklingabringur meðan aðrir neytendur kjósa að geta fengið safaríkari kjúkling sem inniheldur viðbætt vatn. Við því hefur Matfugl brugðist með að bjóða uppá hvorutveggja. Sem dæmi um það þá framleiðum við kjúklingabringur sem innihalda ekkert viðbætt vatn undir vörumerkjunum Ali og Ferskir kjúklingar. Í öllum tilfellum þar sem vatni er bætt í vörur frá okkur kemur það fram á innihaldslýsingu. " Þetta kemur fram í svari Matfugls til áhugafólks um velferð dýra sem hefur á Facebook-síðu Matfugls óskað eftir upplýsingum um aðbúnað kjúklinga í búum fyrirtækisins. Þá óskuðu umræddir neytendur einnig eftir myndum sem teknar eru í kjúklingabúunum, og hefur Matfugl einnig orðið við því. Myndirnar má sjá hér. http://www.flickr.com/photos/61660020@N07/ Sumir vilja vita sem minnst Ekki hafa þó allir neytendur áhuga á aðbúnaði þeirra dýra sem það síðar neytir. Þannig segir Þorstína Sigurjónsdóttir. „Myndi manni líða betur með að vita að það sem er á diski manns, hafi verið haft sem gæludýr og síðan drepið ? Það hefði verið drepið hvort sem var. Fólk þarf að gera upp við sig hvort það vilji vera grænmetisætur eða ekki. Það er ekkert fagurt við það að ala eitthvað eingöngu með það í huga að drepa það síðan, en svona er það nú samt. Það er ekki heldur vel farið með fiskana í sjónum. Á meðan ég er ekki grænmetisæta, vil ég sem minnst vita um aðbúnað dýra sem ég kýs að borða og ekki myndi ég vilja koma inní sláturhús heldur," segir hún á síðunni. Enginn fugl í búri Í svari Matfugls til neytenda kemur fram að starfsfólk á þeim bænum fagni sýndum áhuga á starfseminni; „Jafnframt viljum við mótmæla tilhæfulausum ásökunum um slæma meðferð á dýrum." Þá er bent á að starfsreglur alifuglaræktar á Íslandi eru settar af Landbúnaðarráðuneytinu og að öll bú eru tekin reglulega út á vegum Matvælastofnunar. „Starfsmenn Matfugls hafa frá upphafi lagt metnað sinn í það að hafa aðbúnað dýranna á búum sínum eins góðan og kostur er í nútíma landbúnaði. Sem dæmi um það hafa dýralæknar verið í fullu starfi hjá okkur frá árinu 1999 og hefur þeirra hlutverk verið að stýra gæðum framleiðslunnar og huga að velferð dýranna. Allur búnaður á búunum er af fullkomnustu gerð og enginn fugl hjá okkur hefur nokkru sinni verið alinn í búrum heldur fá þeir að valsa um húsin að vild," segir í svarinu. Of kalt úti Þeir neytendur sem leituðu eftir upplýsingum frá Matfugli höfðu einnig sérstakan áhuga á vistvænni framleiðslu. „Kjúklingaframleiðsla á Íslandi er nálægt því að vera vistvæn. Það eina sem vantar upp á er að fuglarnir geta ekki gengið inn og út úr húsum. Ástæður fyrir því eru aðallega tvær; annarsvegar að á Íslandi er of kalt fyrir fuglinn til að þrífast utandyra en kjörhitastig í kjúklingaeldi er á bilinu 21-31°C og hins vegar strangar heilbrigðiskröfur varðandi campylobakter til verndar neytendum, en fugl sem gengur úti er oftar en ekki sýktur af campylobakter. Af þessum sökum er ekki í boði að selja ferskan „free range" kjúkling á Íslandi þó að það tíðkist erlendis enda eru heilbrigðiskröfur ekki eins strangar þar," segir í svari Matfugls.

Bannað að slíta eistun úr grísum

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur gefið út reglugerð um aðbúnað og heilbrigði svína. Samkvæmt henni er óheimilt að gelda grísi, eldri en 7 daga gamla, án deyfingar. Þá er óheimilt að slíta eistu úr grísum. Í reglugerðinni kemur sömuleiðis fram að ekki sé leyfilegt að klippa halann af grísum nema brýna nauðsyn beri til, að mati dýralæknis, og skal það þá gert af dýralækni eftir að grísinn hefur verið deyfður. Dýralæknum einum er einum heimilt að gelda grísi, eða þeim sem hafa fengið til þess sérstakt leyfi frá Matvælastofnun. Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, skipaði í nóvember starfshóp til að leysa úr þeim vanda sem steðjar að svínarækt í landinu. Hópnum var meðal annars ætlað að fjalla um aðbúnað og meðferð svína, og er reglugerðin afrakstur þeirrar vinnu. Í nóvembermánuði hafði Vísir fjallað ítarlega um meðferð á dýrum, þar á meðal grísa. Þá var greint frá því að á Íslandi eru karlkyns grísir geltir án deyfingar eða verkjastillingar. Starfsmaður svínabúsins sker þá í punginn og slítur eistun út. Aðgerðin er gríðarlega sársaukafull fyrir grísina. Kjöt geltra grísa er án sérstaks bragð og lyktar sem getur komið af ógeltum grísum og er það megin ástæðan fyrir geldingunni. Þegar þröngt er um grísi og þeir hafa lítið fyrir stafni eiga þeir til að fara að naga halann hver á öðrum sér til dægrastyttingar. Þetta getur leitt til sýkinga og aukins kostnaðar fyrir svínabú. Vegna þessa tíðkast víða að starfsfólk svínabúa klippir halann af grísunum og styttir tennur þeirra. Samkvæmt nýju reglugerðinni er óheimilt að klippa tennur grísa, en leyfilegt verður að slípa þær. Reglugerðina má lesa í heild sinni á vef Stjórnartíðinda, með því að smella hér. http://stjornartidindi.is/Advert.aspx?ID=2eedef15-af33-4a49-a1c3-be1998dc83dd




Fleiri fréttir

Sjá meira


×