Innlent

Fær greiddar bætur vegna skipunar í héraðsdóm

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árni Mathiesen var settur dómsmálaráðherra. Mynd/ GVA.
Árni Mathiesen var settur dómsmálaráðherra. Mynd/ GVA.
Hæstiréttur dæmdi í dag íslenska ríkið og Árna M. Mathiesen, fyrrverandi ráðherra, til að greiða Guðmundi Kristjánssyni 500 þúsund krónur í miskabætur vegna skipunar í embætti Héraðsdóms Norðurlands eystra í lok árs 2007.

Valnefnd komst að því að Guðmundur og tveir aðrir umsækjendur um dómaraembættið hefðu staðið öðrum framar. Árni, sem þá var settur dóms- og kirkjumálaráðherra, skipaði aftur á móti Þorstein Davíðsson í embættið. Nefndin taldi að hann stæði hinum umsækjendum þremur að baki þrátt fyrir að hann teldist hæfur til að gegna embætti héraðsdómara.

Guðmundur krafðist 5 milljóna í skaðabætur vegna fjártjóns sem hann hafði orðið fyrir við það að missa af embættinu. Hæstiréttur komst hins vegar að því að þar sem ekkert hafi legið fyrir um að Guðmundur hafi staðið nær en aðrir umsækjendur sem taldir voru hæfastir til að hljóta embættið voru íslenska ríkið og Árni sýknuð af kröfu Guðmundar um viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna fjártjóns hans. Hann fær hins vegar greiddar 500 þúsund krónur í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×