Innlent

Það gengur ekkert lengur að ég heiti Hólmfríður

Erla Hlynsdóttir skrifar
„Ég er auðvitað ekki ánægður með þetta," segir Hans Miniar Jónsson en mannanafnanefnd hefur hafnað umsókn hans um að nafnið Miniar skuli fært í mannanafnaskrá. Hans Miniar er á lokastigum kynleiðréttingarferlis en sem barn var hann nefndur Hólmfríður.

Heimilt er að sækja um nafnabreytingu einu sinni á lífsleiðinni og til stóð að Hans Miniar myndi sækja um að fá nafni sínu breytt í það nafn sem hann gengur nú undir.

Eftir að ákvörðun mannanafnanefndar lá fyrir hafði hann val á milli þess að sækja aftur um að Miniar yrði leyfilegt nafn, og þá reyna að fá það í gegn með öðrum rithætti, eða sækja þegar um að fá nafni sínu einfaldlega breytt í Hans Jónsson.

„Það gengur ekkert lengur að ég heiti Hólmfríður," segir hann djúpri röddu. „Ekki eins og ég lít út núna," segir hann.

Ástæða þess að nafninu Miniar var hafnað er sú að ritun þess samræmist ekki í íslenskum rithefðum.

Hans Miniar ætlar hins vegar að halda áfram að nota nafnið þó það fáist ekki skráð í Þjóðskrá. „Ég þrjóskast bara við," segir hann.

Hans Miniar er 27 ára gamall, búsettur á Akureyri og giftur karlmanni.

Hann er lengi búinn að vera í ferli til kynleiðréttingar. „Nú er ég bara að bíða eftir tíma í brottnám brjósta," segir hann.

Hans Miniar bendir á að það séu ekki allir transmenn sem fari í aðgerð á kynfærum og er sjálfur ekki viss um hvort hann ætlar að gera það. „Það er hægt að gera mun minna fyrir okkur strákana," segir hann en mun flóknara er að endurgera kynfæri karla en kvenna.

Miklar framfarir hafa þó orðið í þessum efnum á síðustu árum og reiknar Hans Miniar fastlega með að straumhvörf verði á næstu tíu til tuttugu árum. „Þá verður örugglega hægt að gera meira," og ætlar hann því að bíða og sjá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×