Innlent

Ekki hægt að mæta öllum óskum

Börn að leik Sjálfstæðismenn í menntaráði eru mjög óánægðir með fyrirhugaðar breytingar.Fréttablaðið/gva
Börn að leik Sjálfstæðismenn í menntaráði eru mjög óánægðir með fyrirhugaðar breytingar.Fréttablaðið/gva
Meirihlutinn í menntaráði og íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar leggur til nokkrar smávægilegar breytingar á tillögum Besta flokksins og Samfylkingarinnar um fyrirkomulag skóla- og frístundamála í borginni í umsögnum sínum um málið.

Í yfirlýsingu meirihlutans eru breytingartillögurnar sagðar taka mið af umsögnum foreldra og fagaðila, sem langflestar voru mjög neikvæðar í garð fyrirhugaðra breytinga.

Meirihlutinn leggur til að nokkrum sameiningum skóla og leikskóla verði frestað til áramóta og sums staðar enn lengur. Horfið verði frá stöku sameiningum sem ekki þykja forsendur fyrir við nánari athugun og enn annars staðar verði haft nánara samráð en verið hefur við hagsmunaaðila áður en gengið verði frá ákvörðunum. Blásið verður til vinnufunda í öllum hverfum í vor með foreldrum og starfsfólki um frekari sparnað. Ekki sé hins vegar hægt að koma til móts við allar óskir vegna knapprar stöðu borgarsjóðs.

Meirihlutinn segir áætlað að breytingarnar skili eins milljarðs króna sparnaði á þremur og hálfu ári, þar af 300 milljónum árið 2012. Öllum leikskólastarfsmönnum sem missi vinnuna verði boðið starf.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menntaráði lögðu fram bókun á fundi ráðsins í gær þar sem þeir hörmuðu að meirihlutinn ætlaði „að berja höfðinu við steininn“ og fara í breytingarnar þrátt fyrir hávær mótmæli. Ávinningurinn af þeim væri lítill og hætta á að þær sköpuðu frekari óróa og ótta. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×