Sport

Björn Róbert matar samherja sína

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Björn Róbert Sigurðarson
Björn Róbert Sigurðarson Mynd/Stefán
Íshokkíkappinn Björn Róbert Sigurðarson hefur farið afar vel af stað í fyrstu leikjum Aberdeen Wings í NAHL-deildinni vestanhafs. Grafarvogsbúinn uppaldi er næststigahæsti leikmaður liðsins í fyrstu átta leikjum tímabilsins.

Eftir frábæra byrjun töpuðu Vængirnir í Suður-Dakóta tveimur leikjum um liðna helgi. Liðið er í þriðja sæti af fimm liðum í miðdeildinni en NAHL-deildinni er skipt í fjórar deildir.

„Aðstæðurnar hérna eru frábærar og manni líður eins og maður sé í atvinnumennsku,“ segir Björn Róbert sem líkar dvölin vestanhafs vel. Hann dvaldi í Danmörku síðastliðinn vetur og iðkaði íþrótt sína en segir umgjörðina sérstaklega góða í Aberdeen.

„Það er ekki verra að fá í kringum 2000 manns á heimaleiki í hokkídeild 21 árs og yngri,“ segir Björn Róbert sem hefur náð sér vel á strik. Hann hefur skorað eitt mark en er í fjórða sæti í deildinni yfir flestar stoðsendingar. Þær eru orðnar níu eftir átta leiki. Þá er hann næststigahæsti maður liðsins þegar miðað er við mörk og stoðsendingar.

„Það er borin mikil virðing fyrir liðinu í bænum svo maður fær mikla athygli,“ segir Björn sem er sáttur við sína stöðu í liðinu. Þá kann hann vel að meta þjálfara liðsins.

Frammistaða Björns á dögunum varð til þess að hann var valinn í lið vikunnar. Þá átti hann fimm stoðsendingar í tveimur sigurleikjum Vængjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×