Sport

100 dagar í ÓL - skíðagöngustrákarnir æfa í Hlíðarfjalli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sævar Birgisson.
Sævar Birgisson.
Brynjar Leó Kristinsson og Sævar Birgisson stefna báðir að því að verða fyrstu íslensku skíðagöngumennirnir á Vetrarólympíuleikum í tuttugu ár þegar leikarnir fara fram í Sochi í Rússlandi í byrjun næsta árs.

Þeir skipa landslið Íslands í skíðagöngu og það kemur fram á heimasíðu Skíðasambands Íslands að þeir Brynjar Leó og Sævar æfi nú báðir í skíðagöngubrautinni í Hlíðarfjalli við fínar aðstæður en talsvert hefur snjóað þar síðustu daga. Í byrjun mánaðarins æfðu þeir í Ramsau í Austurríki.

Allt lítur út fyrir að þeir geti æft á skíðum næstu daga og fengið mikilvæga skíðadaga inn í sína þjálfun. Það er ekki nema á stöku stað sem snjór er kominn í skíðagöngubrautir á norðurlöndunum þar sem að strákarnir helst hafa verið við æfingar.

Daníel Jakobsson, fyrrverandi formaður SKÍ, og Rögnvaldur Ingþórsson kepptu í skíðagöngu á ÓL í Lillehammer árið 1994 og síðan hefur Ísland ekki átt keppenda í skíðagöngu á leikunum.

Vetrarólympíuleikarnir í Sochi hefjast 7. febrúar næstkomandi og standa vonir til þess að Ísland verði með allt að tíu keppendur á leikunum.

Sjá má dæmi um æfingar hjá Sævari Birgissyni og Brynjari Leó Kristinssyni hér fyrir neðan en þeir voru þá í Austurríki.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×