Lífið

Undirbúa upprennandi hönnuði

Freyr Bjarnason skrifar
Segir markaðinn mjög mikilvægan fyrir unga og efnilega hönnuði.
Segir markaðinn mjög mikilvægan fyrir unga og efnilega hönnuði. Vísir/Stefán
Ungir hönnuðir á aldrinum 16 til 25 ára ætla að selja hönnun sína og handverk í Hinu húsinu fimmtudaginn 11. desember frá kl. 17-22. Markaðurinn er hugsaður sem vettvangur fyrir unga hönnuði til að koma hönnun sinni á framfæri sér að kostnaðarlausu.

„Þeir fá að selja hérna og sýna vörurnar sínar frítt. Svo erum við líka að veita þeim aðhald og hjálpa þeim að búa til Facebook-viðburði, hvetja þá til að taka myndir af vörunum sínum og stílisera vel. Við erum að undirbúa upprennandi hönnuði við að stíga sín fyrstu skref í þessu,“ segir Erla Gísladóttir, kynningarfulltrúi Hins hússins.

Hún segir markað sem þennan mjög mikilvægan fyrir unga hönnuði. „Það er ekkert hægt að sækja sér upplýsingar neins staðar annars staðar, eins og hvernig þú átt að kynna vörurnar þínar.“

Í boði verður að kaupa ýmislegt í jólapakkann, m.a. handgerðar skissubækur, eyrnalokka, hárbönd, ofurhetjuslaufur, hálskraga, prjónaðar og heklaðar húfur og heimabakaðar smákökur. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×