Lífið

Ástarjátning fjögurra ára drengs: „Þú ert falleg eins og hestur“

Bjarki Ármannsson skrifar
Bréfið frá Bennet til Baily.
Bréfið frá Bennet til Baily. Mynd/Reddit/Imgur
Hinn fjögurra ára gamli Bennet sló í gegn í netheimum í vikunni þegar mynd af ástarbréfi hans til bekkjarsystur sinnar rataði á vefsíðuna Reddit. Bréfið, sem er stílað á stúlku að nafni Baily, hlýtur að vera með því krúttlegasta og rómantískasta sem drengur á leikskólaaldri hefur látið frá sér.

Lauslega þýdd á íslensku hljóma skilaboð Bennet til Baily svona:

Baily,

Vilt þú koma heim til mín? Við skulum leika okkur saman. Mér finnst þú falleg, eins og hestur eða maríubjalla. Ég veit ekki alveg hvort. Þú ættir að koma í heimsókn til mín og borða osta með mér. Ég elska þig og ég missti tönn í gær. Ég held að mig langi til að sýna þér töfrabragð og leyfa þér svo að horfa á mig berjast við vélmenni.

Ástarkveðjur,

Bennet.

Það var Jennifer, móðir Bennets, sem skrifaði bréfið upp eftir hugmyndum hans. Hún segir hann hafa fengið hugmyndina að því að senda Baily bréf þegar hann sá móður sína senda tölvupósta.

„Hann talar stanslaust um hana og hvað hann elskar „gula hárið“ hennar,“ segir Jennifer í samtali við Huffington Post. „Hann heldur upp á fimm ára afmælið sitt eftir nokkrar vikur og þemað er riddarar og prinsessur. Hann er hæstánægður að vita að Baily ætlar að mæta sem prinsessa.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×