Lífið

Sendi framtíðareiginkonu sinni jólagjöf ellefu árum áður en þau hittust

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Þegar Joana Wolfe var lítil stúlka sem bjó í úthverfi Manila á Filippseyjum fékk hún jólagjöf frá sjö ára strák sem heitir Tyrel og bjó í Idaho í Bandaríkjunum.

Í pakkanum var mynd af Tyrel en hann sendi pakkann í gegnum góðgerðarsamtökin Operation Christmas Child. Hann sendi Joana einnig heimilisfang sitt og nafn. Joana sendi honum bréf til að þakka honum fyrir en fékk aldrei svar.

Ellefu árum síðar hafði Joana upp á Tyrel á Facebook og sendi honum vinabeiðni. Stuttu seinna samþykkti Tyrel beiðnina og þau byrjuðu að tala saman daglega. Í júní í fyrra ákvað Tyrel síðan að kaupa flugmiða til að eyða tíma með Joana og spyrja föður hennar hvort hann mætti bjóða henni á stefnumót.

„Það kom undursamleg tilfinning yfir mig þegar ég sá andlitið hans. Ég var svo hamingjusöm að ég grét,“ segir Joana um þeirra fyrstu kynni í samtali við vefsíðuna Viral Charge.

Tyrel var sannfærður um að hún væri sú eina rétta tveimur vikum seinna, sneri aftur heim og safnaði pening svo hann gæti eytt heilum mánuði á Filippseyjum. Þá bað hann um hönd Joana og í september flugu þau skötuhjúin til Idaho og gengu í heilagt hjónaband í október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×