Lífið

Náðu að bjarga Herra Níels

Adda Soffia Ingvarsdóttir skrifar
Hér er Gríma í hlutverki apans hennar Línu, Herra Níels.
Hér er Gríma í hlutverki apans hennar Línu, Herra Níels. Vísir/Grímur Bjarnason
„Þetta endaði sem betur fer vel og var meira að segja nokkuð fyndin saga að lokum,“ segir Ilmur María Stefánsdóttir, móðir ungu leikkonunnar Grímu Valsdóttur sem fer með hlutverk Herra Níels í Línu Langsokk.

Á laugardag varð Gríma fyrir því óhappi að renna og detta á höfuðið rétt fyrir sýningu og gat því miður ekki tekið þátt. „Sem betur fer er sýningarstjórinn, hún Ingibjörg, svo skelegg að hún mældi hin börnin sem eru í sýningunni og fann út hver myndi passa í apabúninginn,“ segir Ilmur.

Úr varð að Bjarni Hrafnkelsson, sem fer með hlutverk skóladrengs í sýningunni, stökk inn og lék Níels fyrir hlé. Sýningarstjórinn fór svo í það að ná í föður Mikaels, sem leikur Níels á móti Grímu.

„Hún hringdi og fékk þær upplýsingar að hann væri á fundi. Eitthvað heyrði hún vitlaust og fannst eins og hann væri í sundi svo hún hringdi í allar sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu og lét kalla upp pabba Herra Níels,“ segir Ilmur og hlær.

Allt fór vel að lokum og náðist í aukaleikarann sem fór upp á svið eftir hlé. Ilmur segir að Gríma sé orðin hress og taki þátt í næstu sýningu eins og ekkert hafi í skorist.

„Það passar henni vel að leika apann Níels þar sem hún er algjör prílari og er eiginlega vön að detta,“ segir hún.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×