Lífið

Vinamargt beykitré í Álfagarði í Hellisgerði

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Ragnhildur stendur hér við beykitréð sem hún heldur mikið upp á.
Ragnhildur stendur hér við beykitréð sem hún heldur mikið upp á. Vísir/GVA
Í Álfagarðinum sem er í Hellisgerði í Hafnarfirði kennir ýmissa grasa.

Þar má finna margs konar muni og handverk tengt álfum, meðal annars álfate sem unnið er úr íslenskum jurtum. Uppruni tesins er sérstakur en uppskriftina segir Ragnhildur Jónsdóttir, sem rekur Álfagarðinn, koma frá álfaseiðkonu.

„Hún býr í þessu fallega beykitré sem er svolítið magnað, þetta tré á marga vini sem heimsækja það. Mennska vini á ég við,“ segir Ragnhildur en beykitréð stendur í Álfagarðinum.

„Ég hef alltaf heimsótt þetta tré og þótt vænt um það frá því ég var krakki. Kom í ljós að margir sem búa hér í kring eða bjuggu hérna áður hafa heimsótt tréð. Sumir hugleiða við það og sumir koma bara og klappa því í laumi, eða ekkert í laumi. Það er bara eitthvað sérstakt við þetta tré.“

Nóg verður um að vera í Álfagarðinum á aðventunni. Nú stendur yfir myndlistarsýning með verkum eftir Ragnhildi en viðfangsefni sýningarinnar er hraunið og eru verkin unnin með blandaðri aðferð.

Laugardaginn 20. desember verður kyrrðarstund við álfakirkjuna í Hellisgerði. „Kyrrðarstundin hefst klukkan tólf þegar sólin er vonandi að kíkja hérna yfir. Kerti og lítil róleg stund,“ segir Ragnhildur og bætir við að öllum sé velkomið að koma og taka þátt í kyrrðarstundinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×