Lífið

Grafískur hönnuður gerir barnahárbönd

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Hilda með dætrum sínum og lítilli vinkonu sem allar eru með hárböndin.
Hilda með dætrum sínum og lítilli vinkonu sem allar eru með hárböndin. Mynd/BÍG
„Í rauninni byrjaði þetta þegar ég átti eldri dóttur mína árið 2011, þá fór ég að gera hárböndin,“ segir Hilda Björg Stefánsdóttir, grafískur hönnuður, sem nýverið hóf sölu á hárböndum fyrir börn undir nafninu AMIE.

„Svo átti ég yngri dóttur mína árið 2013 og fór að gera hárböndin þá líka. Ég fékk alveg mikið af „kommentum“ á böndin þegar við fórum á ballettæfingar og svona.“

Í kjölfarið ákvað Hilda að gera eitthvað meira með hárböndin. „Ég fór svona að hugsa að það væri kannski gaman að gefa þetta í gjafir og gera eitthvað meira með þetta.“

Hárböndin fást í þremur mismunandi litum. Á böndunum eru marglitar þæfðar ullarkúlur og mögulegt er að óska eftir sérstökum litum og samsetningum.

Hugmyndin kviknaði þegar Hilda skoðaði gömul myndaalbúm. Þar rakst hún á myndir af frænku sinni. „Ég man eftir að frænka mín var rosalega mikið með svipuð bönd, hún er orðin 24 ára í dag,“ segir Hilda og bætir við að það skipti líka máli að hárböndin séu þægileg.

„Maður fer líka bara að hugsa þegar hárið er allt úti um allt hjá börnunum. þetta er mjúk teygja og þær geta verið með þetta allan daginn.“ Hárböndin selur Hilda á Facebook/amie.rvk en mun á næstunni opna vefverslun Amie-rvk.com.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×