Lífið

Veit ekki hver kom sér til bjargar

Bjarki Ármannsson skrifar
Nokkrar þeirra mynda sem Sigurður deilir á Facebook-síðu sinni.
Nokkrar þeirra mynda sem Sigurður deilir á Facebook-síðu sinni. Myndir/Sigurður G. Guðjónsson
Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður fór ansi illa út úr síðasta hjólreiðatúr sínum í gær. Hann datt þá á hjólinu sem hann var að prufa í fyrsta sinn, braut bein í vinstri hendinni og hlaut talsverðar skrámur á andliti. Hann deilir myndum af áverkunum á Facebook-síðu sinni í dag og í gær en kveðst í samtali við Vísi allur að koma til.

„Heilsan er svona að verða betri,“ segir Sigurður. „Ég tók eina vitlausa ákvörðun og flaug á hausinn, skóf andlitið frá auga og niður á kinn.“

Sigurður segist hafa verið að prufa svokallað Fatboy-hjól sem hann var með í láni.

„Það eru hjól með breiðum dekkjum til að hjóla í snjó og sandi og svoleiðis,“ útskýrir hann. „Það var smá hálka sem ég var að reyna að forðast og ég hjólaði á það sem ég hélt að væri hóll. En það var bara svona barð og ég fór fram af því.“

Sem betur fer sáu gangandi vegfarendur hvað gerðist og hringdu á sjúkrabíl. Sigurður segist ekki vita hvaða fólk það var sem kom honum til aðstoðar.

„Ég þarf að komast að því. Þetta voru einhverjir tveir góðir menn á Seltjarnarnesinu, maður og kona.“

Lögmaðurinn þekkti var ekki lengi á spítalanum en verður í gifsi í þrjár vikur. Hann segir það hafa skipt miklu að hann var með hjálm, eins og alltaf þegar hann fer að hjóla.

„Annars væri ég bara í steik,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×