Lífið

Hvert egg í Varpinu er einstakt

Eggin eru misstór eftir tegundum.
Eggin eru misstór eftir tegundum. Vísir
Telma Magnúsdóttir er hönnuður Varpsins, skartgripalínu þar sem hún vinnur með fuglaegg. Hugmyndin kviknaði fyrir þremur árum þegar Telma var í fæðingarorlofi. „Við vinkonurnar höldu alltaf litlu jól og við höfum haft það sem hefð að koma með heimagerða jólagjöf. Mér hafa alltaf fundist egg svo heillandi, þau eru upphaf að svo mörgu og það gerir þau svo dýrmæt. Ég ákvað að prófa að gera eitt og það heppnaðist svona vel og þetta vatt upp á sig,“ segir Telma. Hún byrjaði á því að gera kríuegg. 

Varpið kemur í litlu hreiðriVísir
Eggin eru öll handgerð frá grunni svo engin tvö eru eins að stærð, gerð, lit og mynstri rétt eins og þau eru í náttúrunni. Telma gerir þau úr leir og málar svo náttúrulegt munstur eggjanna á leirinn. „Eggin eru eins mismunandi og þau eru mörg og egg í hreiðri undan sama fugli geta verið svo mismunandi. Ég reyni að skoða munstrin og fjölbreytileikann hjá hverjum fugli og gera þannig hvert egg einstakt,“ segir hún. Fjórða línan hennar, Snjótittlingavarpið, var frumsýnd í haust, en fyrri línur hennar, Kríuvarpið, Rjúpnavarpið og Teistuvarpið, hafa notið mikilla vinsælda. „Ég hef líka tekið við sérpöntunum og mér finnst það ótrúlega skemmtilegt. Þetta er svo falleg og skemmtileg gjöf,“ segir Telma, en eggin koma í öskju með litlu hreiðri og er kassinn litaður að innan með litum fuglsins. Hægt er að nálgast Varpið í verslununum Epal og Kraum.

Vísir
Vísir





Fleiri fréttir

Sjá meira


×