Lífið

Enginn hrossaskítur í útgáfupartíinu í kvöld

Hæfileikaríkar vinkonur Þær Aníta og Brynhildur bjóða alla velkomna í útgáfupartíið sitt í kvöld. Fréttablaðið/Stefán
Hæfileikaríkar vinkonur Þær Aníta og Brynhildur bjóða alla velkomna í útgáfupartíið sitt í kvöld. Fréttablaðið/Stefán
„Það er einhver misskilningur hjá fólki að þarna sé bara hestalykt. Ég get lofað að þarna er enginn að fara að stíga í hrossaskít,“ segir Aníta Margrét Aradóttir, sem ásamt vinkonu sinni, Brynhildi Oddsdóttur, heldur útgáfupartí í Reiðhöll Spretts í Hestheimum Kópavogi í kvöld.

Aníta fagnar útgáfu bókar sinnar „Hættulegasta kappreið í heimi“ sem fjallar um þátttöku hennar í Mongol Derby, hættulegustu kappreið heims. Þar hafnaði hún í 19. sæti af 48 en mikið afrek þykir að klára ferðina.

Brynhildur gaf nýverið út plötuna „Burning heart“ ásamt hljómsveit sinni Beebee and the bluebirds, en sveitin hefur verið áberandi í blússenunni undanfarið og eftir partíið heldur hljómsveitin tónleika á Frederiksen Ale House.

Þær vinkonurnar kynntust í tamningamannanámi og hafa verið bestu vinkonur síðan, og því staðsetningin við hæfi. Aníta er meira í hestunum í dag en Brynhildur, sem einbeitir sér að tónlistinni.

Aðspurð segir hún þær ekki vilja skipta. „Nei, ég er sko engin söngkona, ég held mig í hestunum,“ segir Aníta létt. Útgáfupartíið hefst kl 18, bókin og platan verða á tilboði og léttar veitingar í boði. - asi






Fleiri fréttir

Sjá meira


×