Lífið

Trúðakarakterinn er í nefinu

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Trúðarnir eru til alls vísir.
Trúðarnir eru til alls vísir. Vísir/GVA
Þriðja árs nemar leiklistardeildar Listaháskóla Íslands verða með trúðasýningar í gamla dómshúsinu við Lindargötu á næstunni. Sýningarnar eru hluti af opnum tímum þar sem kennarinn er með nemendunum. Þuríður Blær Jóhannsdóttir, kölluð Blær, er ein af trúðunum.

„Trúðarnir segja nokkrar sögur á sýningunni, en á henni verða að vera áhorfendur annars lifir trúðurinn ekki, því áhorfandinn tekur þátt í sögunni og getur haft áhrif á framgang hennar,“ segir hún. Engar tvær sýningar verða því eins.

Trúðarnir kampakátirVísir/GVA
„Trúðurinn er alltaf í núinu og segir alltaf satt. Þeir segja sögur og hjálpast að við þær, ásamt salnum,“ segir Blær, en hver sýning er um einn og hálfur tími og ekki er gert hlé á henni. „Það má búast við að hvert kvöld sé fullt af undrum og töfrum. Karakterinn býr í nefinu á trúðnum og hann býr yfir tækni sem framkvæmir töfra. Við erum ekkert að setja kökur í andlitið á okkur neitt.“



Sýningarnar byrja á fimmtudagskvöld klukkan 20. Önnur verður á föstudagskvöld, og síðan alla virka daga næstu viku. „Það eru bara allir velkomnir, nema kannski ekki mjög ung börn, við viljum ekki hræða neinn,“ segir Blær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×