Lífið

Hanna lífræna barnafatalínu

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Helga Ólafsdóttir yfirhönnuður Ígló&Indí og Guðrún Tinna Ólafsdóttir framkvæmdastjóri.
Helga Ólafsdóttir yfirhönnuður Ígló&Indí og Guðrún Tinna Ólafsdóttir framkvæmdastjóri. Vísir
Íslenska barnafatamerkið Ígló&Indý ætlar í fyrsta sinn að senda frá sér lífræna barnafatalínu, en undirbúningur línunnar hefur staðið yfir í nokkurn tíma. „Þessi lína er ókynbundin og kemur í stærðum frá þriggja mánaða upp í átta ára,“ segir Guðrún Tinna Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Igló&Indí.

Merkið hefur vakið mjög mikla athygli erlendis undanfarið og fengið heilmikla umfjöllun á stórum erlendum bloggum og á samfélagsmiðlum. Tinna segir því að áhuginn frá Skandinavíu kalli á framleiðslu á lífrænum fatnaði.

„Skandinavía er mjög upptekin af lífrænni framleiðslu og hún opnar margar dyr fyrir okkur þar sem verslanir vilja geta boðið upp á lífrænan fatnað, þá sérstaklega fyrir nýfæddu börnin,“ bætir Tinna við.

„Þetta snýst líka um stefnu fyrirtækisins þar sem við viljum sýna samfélagslega ábyrgð.“ Línan, sem kemur í verslanir í janúar, inniheldur tíu flíkur og er öll unnin úr mjúkri lífrænni bómull.

„Bómullin er ekki lituð heldur er hún bara í grunnlitnum. Allt sem prentað er á fötin er framleitt undir lífrænum stuðli,“ segir Helga Ólafsdóttir yfirhönnuður Igló&Indí. „Við völdum svo pandabjörn á línuna vegna þess að pandan er í útrýmingarhættu og þess vegna völdum við hana,“ bætir Helga við.

Hægt er að skoða nýju lífrænu línuna í jólabækling Ígló & Indí á heimasíðu þeirra, en línan er væntanleg í verslanir í janúar 2015.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×