Lífið

Jólaundirbúningur í hægagangi

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Brynja Kristín Guðbrandsdóttir og Eva Rakel Óskarsdóttir skreyta jólatré úr spýtum með kramarhúsum og snúnum kertum og vefja sortulyngi um það.
Brynja Kristín Guðbrandsdóttir og Eva Rakel Óskarsdóttir skreyta jólatré úr spýtum með kramarhúsum og snúnum kertum og vefja sortulyngi um það. vísir/stefán
Jólasýning Árbæjarsafns verður opnuð á morgun og verður opin á aðventunni fram að jólum. Sigurlaugur Ingólfsson, verkefnastjóri Árbæjarsafns, segir sýninguna vera fastan lið í jólaundirbúningnum.

„Fólk virðist vilja upplifa gömlu jólastemninguna í ró og næði. Hér gerist allt miklu hægar og það virðist fara vel í fólk á aðventunni. Þessir sunnudagar á aðventunni eru allavega stærstu dagarnir hér hjá okkur á safninu og maður fær jólin alveg beint í æð. Þetta eru erfiðustu dagarnir vegna fjölda verkefna og mikils mannfjölda, en jafnframt skemmtilegustu dagarnir.“

Á sýningunni er verið að undirbúa jólin eins og þau voru í gamla daga. Skorið er út laufabrauð í einu húsinu, kerti steypt úr tólg og jólaskraut föndrað. Prentarar prenta jólakort og skata er soðin í einu húsinu, til að fá réttu lyktina. Einnig er dansað í kringum jólatré og jólasveinarnir koma í heimsókn en Sigurlaugur segir að þeir mæti í gömlu fötunum að sérstakri ósk safnsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×