Lífið

Vill frekar mynda dýr en fólk

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Anna með púðana. Sphynx-kötturinn Birta er á púða í fangi Önnu.
Anna með púðana. Sphynx-kötturinn Birta er á púða í fangi Önnu. vísir/vilhelm
„Ég er mikil dýramanneskja og skil dýr mun betur en fólk,“ segir Anna Ingimarsdóttir ljósmyndanemi sem myndar gæludýr í stað fólks.

„Þetta byrjaði með fyrsta árs sýningunni í skólanum, þar tók ég portrettmyndir af köttum og skrifaði karakterlýsingu við þá,“ segir Anna, sem hefur nú látið prenta myndirnar á púða og samstæðuspil.

Hún útskrifast úr Ljósmyndaskólanum í janúar og ætlar að sérhæfa sig í gæludýraljósmyndun eftir útskrift. „Ég vel alltaf erfiðu leiðina, þarf alltaf að finna upp hjólið. Þess vegna vel ég frekar að taka myndir af gæludýrum en fólki,“ segir hún. Á púðunum eru myndir af gæludýrum sem sátu fyrir í verkefninu og rataði mynd úr sýningunni á forsíðu skólablaðsins. „Það var mynd af henni Birtu, sem er sphynx-köttur, en hún drapst í mars. Eigandi hennar skrifaði bók um hana sem fjallaði um einelti og var Birta aðalpersóna bókarinnar.“

Eftir útskrift vonast Anna til að geta myndað gæludýr eftir sérpöntunum. „Það er draumurinn,“ segir hún. Myndir hennar má skoða á Facebook.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×