Lífið

Bókstafstrúarmennirnir fá því miður mestu athyglina

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Benjamín með tveimur bekkjarbræðrum sínum. Annar er frá Ísrael en hinn frá Palestínu.
Benjamín með tveimur bekkjarbræðrum sínum. Annar er frá Ísrael en hinn frá Palestínu.
„Sabbatinn er hafinn þannig að allt stöðvast hér í bili. Nú er ég að vinna smá þar til teitið hefst svo í kvöld,“ segir Benjamín Þór Waldmann, sem er staddur í bænum Lod fyrir utan Tel Avív í Ísrael. Benjamín lærir nú til mastersprófs í deilustjórnun og málamiðlun við háskólann í Tel Avív. Þá vinnur hann við að stuðla að friðsamlegri sambúð á milli araba og gyðinga í Lod.

„Samhliða náminu starfa ég með samtökunum Ayalim, sem hafa það að markmiði að byggja upp framtíð Ísraels – að vinna með íbúum fátækra bæja og stuðla að fræðslu, endurbótum, friðsamlegri sambúð araba og gyðinga og svo framvegis.“

Benjamín býr á háskólasvæði með 120 nemendum sem flestir eru Ísraelar. „Sumir eru að gera þetta sem hluta af herþjónustu sinni á meðan aðrir eru að hjálpa við að byggja upp bæinn með beinni þátttöku og koma honum í betra horf. Það er mikil saga hér en bærinn hefur svolítið lent í þeirri aðstöðu að vera skilinn útundan,“ segir Benjamín en mikil fátækt ríkir í bænum. „Hann hefur fengið á sig óorð fyrir eiturlyfjaneyslu í gegnum árin og hér eru ekki margir möguleikar fyrir íbúana.“

Lod er afar blandaður bær. „Það er mjög stórt arabasamfélag hér ásamt mismunandi týpum af gyðingum; rétttrúnaðargyðingum, íhaldssömum gyðingum, umbótasinnum og fleirum. Þá er einnig mikið af eþíópískum innflytjendum svo að þetta er algjör suðupottur hvað íbúana varðar. Bærinn á hins vegar ansi langt í land. Grunngerðir samfélagsins eru ekki til staðar,“ segir hann og bætir við að mikilvægt sé að endurnýja bæinn til þess að íbúar hans geti verið stoltir yfir heimabæ sínum.

Benjamín er mikill miðjumaður þegar kemur að deilumálum Ísraels og Palestínu en þess má geta að afi hans, Peter Waldmann, var gyðingur sem flúði frá Vín til Bretlands undan nasistunum. „Margir segja fjölmiðlana vera hlutdræga í garð Palestínumanna en það nákvæmlega sama gildir um Ísraelana auðvitað. Augljóslega er mikið fjallað um átökin milli Ísraela og Palestínumanna, með réttu, því það er mjög stórt mál en það eru margir aðrir hlutir sem eru gríðarlega mikilvægir og hafa mikil áhrif á svæðið. Til dæmis eru það málefni arabískra Ísraela, sem eru fastir á milli þess að hafa tengingu við Palestínumenn og að vera hluti af ísraelsku þjóðinni.“

Benjamín segir bókstafstrúarmenn á báðum hliðum fá mesta athyglina og að það sé miður. „Báðar hliðar þurfa virkilega að leggja sig fram við að skilja sjónarmið hinna. Það er ekki auðvelt eftir átökin í sumar, fólki finnst það ekki vera öruggt. Sama hversu margir deyja þá spyr fólk sig enn: „Hvernig getum við haft frið þegar við erum ekki örugg, hvernig getum við ekki verið á verði, hvernig getum við leyft öllum að ferðast eins og þeir vilja og búist við því að ekkert gerist?“ Málið er aftur á móti það, að þú þarft að hafa fleiri viðræður og bera meira traust til hinnar hliðarinnar. Án þess verður enginn friður og hlutirnir versna. Þú getur ekki fengið fram öryggi á þennan hátt því Palestínumennirnir og hinir minnihlutahóparnir eiga líka heima hér.“

Stiklað á stóru um smábæinn Lod (Lydda)

  • Lod er lítill bær 15 kílómetra fyrir utan Tel Avív. Íbúafjöldi er í kringum 70.000 en bærinn er mjög blandaður aröbum og gyðingum. 

  • Þar til árið 1948 var Lod (Lydda) arababær þar sem bjuggu í kringum 20.000 múslimar og 1.500 kristnir menn. Árið 1947 ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að skipta Palestínu í tvö ríki; eitt fyrir gyðinga og eitt fyrir araba. Nokkur arabísk ríki gerðu árásir á hið nýstofnaða ríki og í stríðinu 1948 sigruðu Ísraelsmenn arabíska bæi fyrir utan svæðið sem SÞ hafði úthlutað þeim, meðal annars bæinn Lod. Sama árið fjölgaði íbúum í bænum þar sem arabískir flóttamenn frá öðrum svæðum höfðu flutt sig þangað. Brátt voru um 1.000 arabar gerðir útlægir úr bænum af Ísraelsmönnum en alls voru um 70.000 arabar gerðir útlægir frá heimabæjum sínum við stofnun Ísraelsríkis árið 1948.

  • Eftir útlegðina fluttu fjölmargir gyðingar í bæinn en samkvæmt tímaritinu The Economist var þriggja metra hár veggur reistur í bænum árið 2010 til að aðskilja hverfi gyðinga og araba auk þess sem hömlur voru settar á byggingastarfsemi araba, á meðan hvatt var til byggingastarfsemi í hverfum gyðinga.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×