Lífið

Fíngerðar fléttur úr óstýrilátum málmum

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Flétta er þriðja skartgripalína Helgu og Orra en línan verður kynnt í útgáfuhófi á morgun.
Flétta er þriðja skartgripalína Helgu og Orra en línan verður kynnt í útgáfuhófi á morgun. Vísir/Stefán
Parið Helga Gvuðrún Friðriksdóttir og Orri Finnbogason hanna skartgripi undir nafninu Orri Finn.

Á morgun verður útgáfuhóf þriðju skartgripalínu þeirra, Fléttu. „Við erum búin að vera að vinna með fléttuformið frekar lengi og gerðum meðal annars fléttaða höfuðkúpu,“ segir Helga. Höfuðkúpan er samsett úr mörgum litlum málmfléttum og er til sýnis í Hönnunarsafni Íslands.

Í útgáfuhófinu verður samnefnd ljósmyndasería Sögu Sig ljósmyndara sýnd. „Við ákváðum að gera eitthvað skemmtilegt og meira fyrir útgáfuna, þannig að við töluðum við Sögu Sig sem var ótrúlega jákvæð og áhugasöm. Hún er búin að taka fallega ljósmyndaseríu sem verður frumsýnd úti á Granda á fimmtudagskvöldið,“ segir Helga. Hún og Orri hafa reynt að fara óhefðbundnar leiðir í útgáfu á skartgripalínum sínum.

„Maður er vanur því að fléttur séu úr hári, sem er auðvitað mjúkt efni og frekar viðráðanlegt. Við erum að vinna með málma, flétta þá og finna út hvernig maður á að láta málm lúta sömu lögmálum og hár.“

Helga segir fléttur að mörgu leyti táknrænar. „Allir tengja á einhvern hátt við þetta form og þekkja það. Það kannast allir við að hafa fléttað vinabönd sem eru tákn um gjafmildi og vináttu.“

Skartið er fíngert og hringarnir með ísettum demöntum.Vísir/Stefán
Ferlið tók langan tíma en Helga segir vinnuna á bak við línuna hafa verið skemmtilega og óvenjulega. „Þetta var frekar flókið fyrst, þegar maður var að átta sig á hvernig maður á að ná að flétta hart efni sem lætur illa að stjórn og vill bara standa út í loftið.“ 

Á endanum tókst Helgu og Orra að finna leið til þess að gera fíngerðar fléttur úr óstýrilátum málminum. „Þetta er í fyrsta skipti sem við setjum demanta í hringa, en Orri er sérhæfður í demantsísetningu.“ Línan samanstendur af eyrnalokkum, armböndum, hálsmenum og hringum með demöntum.

„Við ætlum að freista þess að fá höfuðkúpuna lánaða frá sýningunni á Hönnunarsafninu. Hún er fyrsta afurðin úr þessu fléttuævintýri okkar. Þetta verður vonandi svona allsherjar fléttuuppskera,“ segir Helga hlæjandi. Útgáfuhóf Fléttu verður að Grandagarði 33 á morgun og hefst klukkan átta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×