Lífið

Fær góðan stuðning í London

Elín Albertsdóttir skrifar
Á sunnudag stígur Tanja Ýr á svið í ExCel höllinni í London ásamt 121 öðrum stúlkum í Miss World.
Á sunnudag stígur Tanja Ýr á svið í ExCel höllinni í London ásamt 121 öðrum stúlkum í Miss World. Mynd/Anton Kristinsson, einkasafn
Tanja Ýr Ástþórsdóttir, Ungfrú Ísland 2013, er stödd í London og verður fulltrúi okkar í Miss World á sunnudag. Margt ævintýralegt hefur á daga hennar drifið undanfarnar vikur við undirbúning keppninnar.

Tanja Ýr segir að langþráður draumur hennar sé að rætast með þátttöku í Miss World. „Ég horfði á keppnina þegar Unnur Birna Vilhjálmsdóttir varð Miss World með stjörnur í augunum. Mér fannst þetta allt glæsilegt, sérstaklega kjólarnir. Ég hef alltaf haft áhuga á tísku,“ segir Tanja. Hún fékk reyndar tækifæri til að hitta Unni Birnu áður en hún hélt utan til að fá góð ráð varðandi keppnina. „Að vísu hefur keppnin breyst mikið frá því hún tók þátt í henni fyrir níu árum,“ bætir hún við.

Tanja var á æfingu fyrir keppnina þegar blaðamaður náði tali af henni en fram undan er meðal annars mikilvægt viðtal við dómara. „Ég kom hingað 20. nóvember og hef fengið að upplifa ótrúlega margt skemmtilegt alla dagana. Svo hef ég kynnst frábærum stelpum hvaðanæva úr heiminum. Þetta eru stelpur með ólíkan bakgrunn, menningu og lífsstíl. Það hafa verið alls kyns spennandi viðburðir hér fyrir okkur. Fyrir utan aðalkeppnina eru sex aðrir titlar sem keppt er um. Gefin eru stig fyrir hverja keppni,“ segir hún.

Tanja Ýr hefur fengið tækifæri til að klæðast glæsilegum kjólum en það finnst henni einmitt mjög skemmtilegt. Hér er Tanja á leið í gala-kvöldverð þar sem allar stúlkurnar komu með gjöf frá landi sínu.Mynd/einkasafn
Í rauðum kjól

Tanja segist hlakka mikið til sunnudagsins. „Þetta er virkilega spennandi. Margt hefur komið mér á óvart, til dæmis hvað mikið er að gerast hjá okkur. Þetta hefur reynst mun skemmtilegra en ég bjóst við. Mér finnst gaman að klæða mig upp í fallega kjóla og vera með öðrum þátttakendum. Reyndar er ég með miklu minna af fötum en margar stúlkurnar. Ég kom með þrjár stórar töskur en aðrir keppendur eru með sjö upp í tuttugu og fimm,“ segir hún hlæjandi.

Tanja ætlar að klæðast rauðum, síðum kjól á aðalkvöldinu. „Ég valdi kjól frá bandaríska kjólahönnuðinum Mac Duggal. Það var svolítið fyndið að þegar ég pantaði hann var hann uppseldur. Ég leitaði um allt en fann engan. Mér datt þá í hug að senda bréf á Mac Duggal og segja honum frá vandræðum mínum. Hann brást vel við og reddaði mér kjólnum. Ég fékk hann degi áður en ég hélt hingað til London,“ segir Tanja. „Kjóllinn er einfaldur í sniði en bakið á honum er virkilega flott og það gerir hann glæsilegan.“

Mikil lífsreynsla

Þegar Tanja er spurð hvort hún eigi von á að vinna og verða fjórða íslenska stúlkan sem hlýtur titilinn Miss World, svarar hún: „Ég held að það sé best að búast ekki við neinu, reyna fremur að njóta alls þess sem ég er að upplifa. Ég mun þó gera mitt allra besta. Það væri æðislegt ef mér tækist að feta í fótspor Hófíar, Lindu Pé og Unnar Birnu. Keppnin hefur veitt mér lífsreynslu sem ekki er hægt að fá annars staðar. Maður lærir eitthvað nýtt á hverjum degi. Við höfum farið í mörg viðtöl vegna keppninnar og athyglin virðist beinast mikið að því hvernig karakter maður er.“

Tanja Ýr er 22 ára Reykjavíkurmær. Foreldrar hennar eru Drífa Þorgeirsdóttir og Ástþór Björnsson. Hún á tvær eldri systur. Tanja stundar nám í hugbúnaðarverkfræði við Háskólann í Reykjavík og fékk að taka prófin áður en hún fór utan. Hún segir að fegurðarsamkeppni Íslands hafi gefið sér mörg tækifæri.

„Ég stofnaði til dæmis góðgerðarnefnd í HR þar sem við söfnum fyrir langveik börn. Nú er árleg góðgerðarvika í skólanum.“

Það hefur verið mikið um að vera síðustu vikur hjá Tönju, eitthvað nýtt að sjá og gera á hverjum degi.mynd/einkasafn
Með stuðning í London

Foreldrar hennar og önnur systir koma til London fyrir helgi til að fylgjast með keppninni. „Fimmtán vinir mínir koma líka svo ég hef mikinn stuðning í salnum.“ Tanja segir að hægt verði að horfa á beina útsendingu frá keppninni á YouTube auk þess sem hægt er að hlaða henni niður á appi. Sjálf er hún með Facebook-síðu, Miss World Iceland, en hana fékk hún afhenta frá stjórnendum keppninnar. „Ég á að vera dugleg að dreifa síðunni, fá fólk til að skrifa eða læka. Sú sem er með öflugustu síðuna vinnur titilinn Miss Media Award.“

Þegar Tanja er spurð hvað hún vilji segja við þá sem eru á móti svona keppnum, svarar hún. „Mér finnst að allir eigi að fá tækifæri til að gera það sem þeir vilja. Það pínir mann enginn í svona keppni. Keppnin gengur út á að nota fegurð fyrir góðgerðarmál. Vakin er athygli á ýmsu sem betur má fara í heiminum. Ég á eftir að nýta þessa reynslu mína í framtíðinni, jafnt í skóla sem vinnu.“

Miss World fer fram í nýlegri sýningarhöll, ExCel, London. Keppendur eru 121 frá jafn mörgum löndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×