Lífið

Einstakur samhugur á jólahátíð

Freyr Bjarnason skrifar
Á meðal þeirra sem koma fram annað kvöld eru Heiða Ólafsdóttir, Laddi og Hreimur.
Á meðal þeirra sem koma fram annað kvöld eru Heiða Ólafsdóttir, Laddi og Hreimur. Vísir/Valli
Jólahátíð fatlaðra fer fram á Hilton Reykjavík Nordica á annað kvöld. Þetta er í 32. sinn sem André Bachmann stendur fyrir hátíðinni en yfir 1.400 manns sóttu hátíðina í fyrra.

Hátíðin er fyrir löngu orðin ómissandi þáttur í jólaundirbúningi fatlaðs fólks og aðstandenda þeirra. Aðgangur er ókeypis.

Að vanda gefur fjöldi listafólks vinnu sína á hátíðinni og komast þar færri að en vilja, enda er hátíðin orðlögð fyrir þann einstaka og einlæga samhug sem þar ríkir, eða eins og einn tónlistarmaður hafði á orði eftir síðustu hátíð: „Ég hef aldrei kynnst annarri eins stemningu og þakklæti á nokkrum tónleikum sem ég hef verið á síðustu 25 ár.“

Fram koma að þessu sinni: Heiða Ólafs, Laddi, Hreimur, Gummi Jóns og Vestanáttin, Lögin úr teiknimyndunum, Ingó Veðurguð, Skítamórall ásamt André Bachmann og hljómsveitinni Mjallhvíti.

Skólahljómsveit Árbæjar- og Breiðholts undir stjórn Snorra Heimissonar leikur í anddyri frá 19.15. Kynnir sem fyrr er Sigmundur Ernir Rúnarsson, skáld og rithöfundur. Heiðursgestur er forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. Skemmtunin stendur frá kl. 20.00 til 21.30.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×