Lífið

Tilbúinn að sigra heiminn með lakkrís

Freyr Bjarnason skrifar
Johan Bülow hvetur frumkvöðla til að missa aldrei trúna á verkefnið, því allt sé mögulegt í þessum heimi.
Johan Bülow hvetur frumkvöðla til að missa aldrei trúna á verkefnið, því allt sé mögulegt í þessum heimi.
Lakkrískóngurinn Johan Bülow var á dögunum kjörinn leiðtogi ársins í Danmörku af hagsmunasamtökunum Lederne.

Hann hefur undanfarin sjö ár byggt upp fyrirtækið sitt Lakrids by Johan Bülow, sem er þekkt fyrir gæðalakkrís sem er núna seldur víða um heim.

Aðrir tilnefndir sem leiðtogi ársins voru Niels B. Christiansen frá fyrirtækinu Danfoss, Dorte Gleie, yfirmaður hjá Den Blå Planet, og skólastjórinn Birgit Lise Andersen. Þetta var tólfta árið í röð sem verðlaunin voru afhent en á meðal þeirra sem hafa hlotið þau er Jørgen Vig Knudstorp, forstjóri Lego.

Aðspurður segir Bülow að verðlaunin hafi að sjálfsögðu komið honum á óvart, enda afar hæft fólk sem var einnig tilnefnt. Hann segir þau samt ekki hafa neina sérstaka þýðingu fyrir sjálfan sig. „Ég rek fyrirtækið mitt áfram, ótrauður. Það er gaman að fá svona verðlaun en þetta var ekkert aðalmarkmiðið hjá mér. Þetta var samt skemmtileg reynsla og auðvitað er ég mjög ánægður með verðlaunin.“

Lakkrísævintýri Bülows hófst í eldhúsinu heima hjá mömmu hans í bænum Bornholm. „Ég var alinn upp af móður sem hvatti mig til að gera eitthvað sem ég hafði ástríðu fyrir og eitthvað sem ég gæti verið stoltur af en einnig eitthvað sem ég gæti þénað ágætlega á til að fjölskyldan mín hefði það gott. Þess vegna byrjaði ég í lakkrísnum,“ segir hann. „Mig langaði að búa til eitthvað betra en var í boði á þessum tíma. Markaðurinn var uppfullur af stórum framleiðendum og litlum gæðum og ég vildi búa til meiri gæðalakkrís. Ég hef reynt að gera það undanfarin sjö ár og það hefur gengið alveg ótrúlega vel.“

Hinn þrítugi Bülow hefur skotist upp á stjörnuhimininn á skömmum tíma. Spurður hvort velgengnin hafi gengið hraðar fyrir sig en hann bjóst við segist hann alltaf hafa haft trú á sjálfum sér. „Auðvitað hefur þetta gengið mjög hratt fyrir sig en ég trúði alltaf á fyrirtækið og tækifærið til að gera eitthvað frábært. Ég var sannfærður um að ég gæti ráðið eitt hundrað starfsmenn á sex til sjö árum og þannig er staðan einmitt í dag. Það er frábær tilfinning. Ég trúði alltaf á þetta.“

Bülow rekur átta lakkrísverslanir í Danmörku og fyrir skömmu var opnuð ný verslun í Ósló. „Þetta hefur gengið mjög vel. Planið er að opna fleiri verslanir í Noregi og í Svíþjóð á næstu árum. Við höfum viðskiptavini víða og takmarkið er að selja gæðalakkrís úti um allan heim,“ segir hann en lakkrísinn er einnig seldur á Spáni, Ítalíu, í Finnlandi, Þýskalandi, Dubai og á Íslandi.

Fyrirtækið leggur áherslu á að selja lakkrísinn á sérvöldum verslunum í öðrum löndum, þar á meðal í Epal hér á landi. „Við þurfum rétta samstarfsfélaga til að geta þetta. Epal er fullkominn samstarfsfélagi fyrir okkur, þau trúa á gæðin og allt í kringum vöruna. Við viljum bara litlar verslanir með mikil gæði og mikla ástríðu. Það er okkar markaður. Við viljum ekki eyða tímanum í neitt annað,“ segir hann og bætir við: „Við hefðum getað selt lakkrísinn okkar í öllum stóru verslunarmiðstöðvunum í Evrópu en við höfum ekki farið þá leið. Við viljum réttu sendiherrana fyrir vörurnar okkar, ekki fólk með excel-skjöl sem reynir að græða á okkur. Þetta er hluti af okkar stefnu, að passa upp á sendiherrana okkar og að selja lakkrísinn á réttum stöðum.“

Spurður hvort hann geti veitt frumkvöðlum sem eru að stíga sín fyrstu skref í bransanum góð ráð hefur lakkrískóngurinn þetta að segja: „Trúið því að allt sé mögulegt í þessum heimi. Ég fékk þá hugmynd að búa til besta lakkrís í heimi. Ég hef reynt að gera það í mörg ár, 120 klukkustundir á viku, og það hefur tekist. Núna erum við með nýja verksmiðju, með fullt af góðum starfsmönnum og tilbúin til að sigra heiminn.“



Á eftir að smakka kaffið í Búðinni

Lakkrísinn frá Johan Bülow er seldur í Búðinni í New York, kaffibar og verslun sem einblínir á norræna hönnun. Þar er dýrasti kaffidrykkurinn, svokallaður lakkríslatté með sérinnfluttu lakkríssírópi og lakkrísdufti frá Bülow. Drykkurinn seldist upp á fyrsta degi en hann kostar heila sjö dollara eða um 794 íslenskar krónur. „Ég hef ekki bragðað á þessu kaffi en það ætti að vera mjög gott. Ég hef heyrt að þetta sé dýrasta kaffið í New York og ég mun pottþétt smakka það einn góðan veðurdag,“ segir hann hress.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×